Eyddi gærkvöldinu, hálfsofandi, í að horfa á sósíófóbana í American Idol. Í smásálarfræðilegum pælingum. Fullt af fólki var búið að telja sjálfu sér trú um að það gæti sungið og orðið poppstjörnur. Alltaf dreymt um að verða söngvarar. Allir sögðust hafa sungið frá því í frumbernsku og eiga engan annan draum í lífinu en þann að verða Ædol. Vá hvað það hlýtur þá að vera mikið af frústreruðu fólki í Ammríku.
Enda brugðust margir undarlega við þegar dómnefnd var ekki sammála þeim um ágæti hæfileikanna. (Þó svo að ljóst væri, algjörlega, að þeir gætu það ekki.) Er ammríski draumurinn með allri sinni yfirgengilegu sjálfsánægju kannski orðinn að einhverri borderline persónuleikaröskun?
Og nú standa fyrir dyrum inntökupróf í Leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Og sósíófóbarnir farnir að láta á sér kræla á spjallinu á leiklistarvefnum og farnir að tala, fyrirfram, um klíkuskap. En aldrei slíku vant eru leikaranemar farnir að svara fyrir sig, og það finnst mér skemmtilegt.
Mér finnst þessi umræða alltaf jafn skrítin. Og hún kemur alltaf upp. Auðvitað er taugaveiklandi að fara í þessi próf, ef ég man rétt. Maður verður óskaplega skrítinn í orði og æði á meðan maður er að bíða eftir helv... upphringingunum.
Það liggur nú samt alveg ljóst fyrir hvers vegna fólkið sem stráir um sig samsæriskenningunum eftirá kemst ekki inn í leiklistarskólann. Ég held menn þurfi að vera sæmilega sterkir á geðinu til að vera í þessu námi og sósíófóbar hafa líklega lítið í það að gera. Kannski ætti valnefnd hreinlega að hafa kommentarétt, svo sem eins og í ædolinu. Hún gæti þá bara hreinlega sagt þeim sem eru vond leikaraefni frá því og útskýrt hvers vegna. Kannski myndu þá einhverjir finna köllun sína annars staðar.
Annars held ég að staðreyndablinda á eigin hæfileikaskort sé komin úr tíðaranda alheimsfrekjunnar. Ammríski draumurinn hljóðar uppá það að hver sem er geti "slegið í gegn" í hverju sem honum sýnist ef hann bara trúir nógu mikið á það. Þetta er síðan náttlega bara tómt kjaftæði. Menn getur alveg langað allan skrattann sem þeir hafa ekki baun af hæfileikum í. Og ef menn eyða ævinni í að einblína á það þá geta þeir alveg misst af allskonar sem hentar þeim betur. Og svo náttúrulega þetta með huxanavilluna sem felst í því að lífið sé alls ekki þess virði að lifa því nema menn "slái í gegn" í einhverju.
Og svo er náttlega inn að vera artí og frægur. Með öðrum orðum, leikari eða söngvari. Alveg burtséð frá því hvort mönnum finnst í raun og veru gaman að leika eða syngja. Auðvitað fá menn gjarnan mikið lof og klapp á rassinn þegar vel gengur, en að sama skapi eru menn rifnir á hol þegar þeir leika/syngja illa. Og svo sýnist ævinlega sitt hverjum. Þess vegna hlýtur valnefnd leiklistardeildar að vera nokkur vandi á höndum að greina hafrana frá sauðunum, þ.e.a.s. þá sem raunverulega langar í þessa menntun frá þeim sem hafa látið blekkjast af hæpinu og halda það bara.
Ég er allavega dauðfegin að valnefnd hafði fyrir mér vitið á sínum tíma. Mér hefði leiðst í leiklistarskólanum, finnst ekki ÞAÐ gaman að leika. Hins vegar hefðu menn mátt láta sér detta í hug dramatúrgíubraut fyrr. Þar hefði nú huxa ég verið gaman. En núna nenni ég ekki að sækja um í annað BA.
4.2.05
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Já, fyrsti pósturinn í umræðunni er einmitt eitthvað: "mig langar að sækja um en kemst örugglega ekki inn út af klíkuskap". Sem þýðir: "mig langar rosalega, en þori bara alls ekki. Best að finna einhverja afsökun fyrir aumingjaskapnum".
Annars var þetta reynt í sjónvarpinu úti á Spáni, að setja upp svona Fame Factory dæmi fyrir leiklistarnema, en það virkaði ekki, nennti enginn að horfa.
Já, menn skyldu átta sig á því að höfnun er ekki hættuleg. Og upplifun á slíkri er alls enginn áfellisdómur yfir persónu viðkomandi. Getur meira að segja verið mjög þroskandi, detti menn ekki í þá vondu gryfju að fara að vorkenna sér.
Sósíópatar, eraggi?
Jú, patar voru það sennilega, heillin.
Skrifa ummæli