4.1.06

Álfabörn

Nú eru komnar upp miklar spekúlasjónir um fæðingardaga. Náði mér í Sögu daganna um daginn og er búin að vera að skoða hvaða dagar ku vera skemmtilegir í janúar. Og svo er ýmislegt hægt að miða við. Smábátur er til dæmis fæddur á Jónsmessu, þannig að gaman væri að halda álfabarnaþemanu í fjölskyldunni. (Vissulega hefði í ljósi þess næsta barn átt að fæðast á vetrarsólstöðum eða kannski nýjársnótt, en það er víst of seint að pæla í því.)

Annars líst mér ágætlega á föstudagana í þessum mánuði. Sá næsti er þrettándinn og fyrsta nýja tungl eftir vetrarsólstöður, sem er vissulega hið ákjósanlegasta. Reyndar kannski viss hætta á umskiptingum. Laugardagurinn eftir er síðan Eldborgarmessa. Það er nú flott nafn á degi, en Saga daganna er ekki alveg sammála sjálfri sér um hvers vegna hann heitir það. Það sama á við um föstudaginn 13., en hann ku heita geisladagur, og vera merkilegur sem áttundi dagur eftir jól. Næsti föstudagur þar á eftir er síðan bóndadagurinn. Vilji barnið gleðja föður sinn/verða karlremba.

Og þessutan er ekkert í sjónvarpinu á föstudögum, svo þeir passa ágætlega.

Annars er ekkert að verða að vanbúnaði. Poggufötin komin ofan í skúffur, og taka miklu meira pláss en maður skyldi ætla. Búið að pakka í sjúkrahústöskuna að mestu og kann ég mér vísari konum miklar þakkir fyrir ráðleggingarnar sem ég fékk hér í kommentakerfið um daginn.

Ég ákvað að vera ekki með neina draumóra um hvað ég hyggðist komast í. Ætla bara að fara heim í feitum fötum, kannski verða þau þá bara VÍÐ! Það væri nú aldeilis gaman. Hafiði annars tekið eftir því hvað allar konur í sjónvarpinu eru geðveikt mjóar? Ég get varla einbeitt mér að neinu sjónvarpsefni þar sem ég missi alltaf fókusinn á rassana á mér mjórra kvenfólki. Mikið djöfull svakalega skulu étnar gulrætur og farið í megrun í vor!

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Lýst vel á umskiptingabarn. Vonaði (og vona enn) lengi vel að ég væri varúlfur en ég er víst orðinn of gamall núna, þetta ætti að vera komið í ljós..

En barnið skal skírt bibbi er það ekki örugglega á hreinu?

fangor sagði...

hildur bibbi, það hljómar vel..

Nafnlaus sagði...

Já eða Lilja eð Liljus, það er líka til.

Nafnlaus sagði...

´Mér finnst að hann eigi að heita Úlfur, í höfuðið á mér. Alveg abbsalútt!!!
EKKI nefna hana Ylfu eða mist ef þetta yrði stúlkukorn.. þetta eru orðin leiðnda tískunöfn og skil ég sjálf ekkert í foreldrum mínum að hafa ekki nefnt mig Hallgerði, Hrafnkötlu, Þuríði eða eitthvað ámóta. Í staðin verð ég að bera sama nafn og helmingur smástúlkna á íslandi... og það sem verra er, það er mjög móðins um þessar mundir að nefna hundspottin sín ýmist Ylfu eða Mist!!!
Það er slæmt!

Varríus sagði...

Jahjérna!

Og ég sem hef alltaf haldið að þú hétir Hergerður Ólafsdóttir.

Nafnlaus sagði...

Ja... ég get svarið fyrir að heita ekki Hergerður, en eins og þú veist Toggi minn get ég lítið svarið fyrir í því hversu mikið ég er Ólafsdóttir... eða eitthvað annað...

Magnús sagði...

Föstudagurinn 13. er sjöundi dagur eftir jól, sko.