23.8.06

Og einn enn

Einn leikarinn minn frá liðnum vetri, hann Hjörvar, eignaðist víst líka son þann 18. ágúst. Heilsist á því heimili. Og nú fer þeim nú bara að fækka óléttunum sem ég þekki. Fyrir utan Sillu. Ég sem hélt að nú yrði þetta svona framundir fertugt.

Svo verð ég að tjá mig um hjólreiðar. Það er stórmerkilegur fjandi að þessa fáu mánuði sem er maklegt og réttvíst að hjóla, án þess að verða kalt eða detta í hálku og slasa sig eins og Siggi, skuli borgaryfirvöldum þykja alveg bráðnauðsunlegt að grafa hjólastíga borgarinnar í tætlur og strimla í einhverri geðveikri framkvæmdagleði. Er ekki hægt að gera þetta á veturna? Ekki eins og það sé mikið um snjó eða frost í Reykjavík á veturna. Ætti alveg eins að vera hægt að grafa þá. Gurrr. Eins gott að ég keypti mér torfæruhjól þar sem ákveðinn hluti af leiðinni minni er ný þrautabraut á hverjum degi.

Annars er ég enn frá mér numin af hamingju yfir hjólreiðaátakinu mínu. (Fyrir utan torfærur og fólk sem þvælist stundum fyrir mér.) Ti ldæmis, ef maður vaknar nú með hárið allt út í loftið, þá hjálmast það niður á leiðinni í vinnuna. Ég er reyndar alin upp fyrir tíma hjálmanna og finnst ég eiginlega frekar þroskaheft þegar ég er komin með þetta á hausinn, en það hefur þó sitt notagildi. Fyrir nú utan hversu fullkomlega ómótstæðiegt vaxtarlagið verður orðið um jól.

Við fengum alls konar fólk í mat í gærkvöldi, foreldra mína og afa og ömmu Smábáts. Í nótt sofnuðum við Freigáta síðan einu sinni sem oftar út frá því að hún var að næra sig. Og vöknuðum við það að hún hrundi frammúr. Hún virðist vera alveg í heilu lagi, en ég er með taugaáfall. Enn ein ástæðan til að láta hana hætta að drekka á nóttunni. Sem ég ætlaði að vera hætt fyrir löngu. Sem ég síðan klikka alltaf á vegna þess að hún grenjar svo svakalega hátt. Vandlifað...

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Æi, belssuð vertu. Mínir hausstóru jakar hafa hrunið viðstöðulítið fram úr háa ammríska rúminu í gegnum tíðina og eru nokk heilir. Það er gott að gefa börnum brjóst á næturnar. Þau verða hraust á því og öðlast öryggistilfinningu. Auk þess er óþolandi að hlusta á þau grenja!!!
Afi minn var á brjósti í fjögur ár og er aldrei lasinn. Hann hjólaði til Bolungarvíkur á dögunum og blés vart úr nös. Auk þess hefur þetta svo góð áhrif á tónlistarstöðvar heilans. Þú sérð hvernig fer með fólk sem aldrei fékk brjóst. Ég er ein af þeim. Refsingin er.... BRJÓST!