30.8.06

Þær björtu

Það er staðreynd að sjaldan er ein báran stök og flónska heimsins ríður aldrei við einteyming. Það er líka staðreynd að síðan Freigátan fæddist hefur allur minn persónuleiki lagst á mýkri hliðina og þar liggur hann enn. Ég má því ekkert aumt sjá, heyra eða frétta af án þess að verða fullkomlega miður mín. Slæmir hlutir mega ekki einu sinni næstum koma fyrir börn í sjónvarpinu. Fyrir var ég komin með andstyggð á hvers konar ofbeldi í kvikmyndum eða sjónvarpi, nema þá og því aðeins að viðfangsefni væru forynjur.

Í raunverulega lífinu skilur fólk og flytur úr hverfinu og lokar öllum símunum sínum og skilur hálfvaxna kettlinga eftir á vergangi á veröndinni minni. Í mogganum má lesa um stríð í Úganda sem að mestu leyti er háð af börnum. Þeir sem helst vilja brúka börn í byssufóður þar í landi kalla sig Andspyrnuhreyfingu Drottins. Ef það ætti nú að gera úttekt á höfðatölunni á því í nafni hvaða trúar viðurstyggilegustu glæpirnir hafa verið framdir og flestir drepnir, svona yfirhöfuð, held ég að Islemirnir eigi ekkert í okkur. Fyrir nú utan að nær okkur verða börn móðurlaus, fólk fellur fyrir eigin höndum og af slysförum og svo mætti áfram telja. Stundum gerist þetta allt í einu.

Þegar vonska heimsins nær og fjær verður svo yfirþyrmandi að konan í sjálfri mér verður miður sín, þarf maður að gera úttekt á björtu hliðunum. Hér eru nokkrar:

1. Rannsóknarskip Orton. Ég átti ekkert sérstaklega von á að giftast. Enn síður átti ég von á að eignast jafn frábæran mann og raun ber vitni. Elsku Árni minn er mjög alvarlega frábær í öllu sem hann tekur sér fyrir hendur. Aukinheldur algjörlega laus við dramb eða hroka þessvegna, heldur er ekkert nema hógværðin, tillitssemin og góðsemin í hvívetna, í ofanálag. Algjörlega dásamlegur eiginmaður og fjölskyldufaðir. Auðvitað einblínir maður nú ekki lengi á dekkri hliðar tilverunnar þegar maður á svona ljósgeisla í lífinu sínu.

2. Smábátur siglir hraðbyri í að verða fyrirmynd annarra barna í einu og öllu. Byrjar veturinn einstaklega vel, ekkert nema þægðin, duglegurnar og yndislegheitin. Hvers manns hugljúfi og þar að auki að byrja að verða leikskáld.

3. Heilsuátak fjölskyldunnar. Sennilega það snjallasta sem okkur hefur dottið í hug. Það gengur svona líka glimmrandi vel. Mörinn rennur af strákunum mínum í stríðum straumum og allir eru ánægðir með heilsufæðið.

4. Veðrið. Ég er nú svo undarleg að mér finnast haustveður æðisleg. Hvort sem það er rok og rigning eða sól og kalt. Það er alltaf góð lykt úti núna.

5. Hugleikurinn minn er æði. Hann er svoleiðis að springa úr sköpunarkrafti og spennandi verkefnum núna að allir sem koma nálægt honum smitast. Mikill hugur í mönnum varðandi vetrarstarfið og þegar svoleiðis er er nú gaman að vera í stjórn. Þá er bara spurning um að beina hugmyndaflóðunum í farvegi.

6. Vinnan er skemmtileg. Gaman að vera komin þangað aftur, og svo er hún alveg passlega löng. (Og Rannsóknarskipið stendur sig auðvitað eins og hetja á meðan ég er það. Þegar ég kem heim er ævinlega búið að taka til og elda.)

7. Og um helgina er spennandi gestasýning í Þjóðleikhúsinu. Brúðuheimili Ibsens í japanskri noh-uppsetningu. Hana ætla ég að sjá, ef ég mögulega get.

Sko! Eiginlega bara gaman í mínum bekk.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Alveg er dásamlegt þegar lífið gengur svona fallega og það sem meira er, maður trúi hverju orði;-) en þú gleymdir einni blessuninni sem þú nýtur og það er hún Gyða litla freygáta, sem er með þægustu og ljúfustu börnum sem ég hef hitt, fyrir utan nú hvað hún er sæt! knús til ykkar

Elísabet Katrín sagði...

Frábært hvað allt er gott og gaman :)
Meigi heilladísirnar umvefja ykkur um ókomna framtíð :)
Risa knús til ykkar allra héðan úr norðri***

Sigga Lára sagði...

Ákvað að taka Freigátuna ekki einu sinni fram. Hún er eitthvað svo obbvíuss.