Ég er alltaf að heyra að menn séu að að burðast með þunglyndi árum saman án þess að fatta það og/eða gera neitt í því.
Fékk allt í einu óyfirstíganlega þörf og löngun að skrifa pistil til að vekja athygli á og vara menn við þessum sjúkdómi. Margir ganga með hann lengi án þess að gera neitt í honum ýmist af vanþekkingu eða af því að menn vanmeti hversu alvarlegur hann er. Þess vegna langar mig að byrja á að taka það fram, fyrir þá sem ekki vissu að:
Þunglyndi er lífshættulegur sjúkdómur!
Og það í tvennum skilningi. Þunglyndissjúklingar ákveða GJARNAN að binda endi á líf sitt. Ég þekki allavega fáránlega marga sem hafa farið þá leið. Það gerir ekki boð á undan sér. Hvorki hjá sjúklingunum sjálfum eða öðrum. Eftir sitja svo aðstandendur með sektarkennd og sálarflækjr.
Auk þess er þessi sjúkdómur til mikilla leiðinda í lífinu. Hver einasta mínúta sem eytt er í að ganga með ómeðhöndlað þunglyndi er sóun á lífi. Lífið nefnilega oft of skemmtilegt og frábært til að eyða einni mínútu af því í ómeðhöndlað þunglyndi. Auðvitað verða allir fyrir áföllum og erfiðleikum í lífinu. En er ekki alveg nóg að líða þannig þegar slíkt dynur yfir? Það er óþarfi að vera með hamfaratilfinningar út af einhverju pikklessi í heilanum á sér þegar allt er í raun og veru í lagi?
Ég greindist sjálf með þunglyndi fyrir algjöra tilviljun. Vegna þess að ég bjó með manni sem kannaðist við einkennin og kom mér einhvernveginn til læknis þegar ég var helst ekki búin að vilja fara úr sófanum mínum og búin að vera í stanslitlu dramakasti í örugglega ár. Eftir á að hyggja var ég sennilega búin að vera þunglynd frá unglingsaldri. Um tíu ár áður en vandamálið greindist hefðu verið mér talsvert auðveldari hefði ég vitað eitthvað. Eins veit ég ekki hvar sjálfseyðingin hefði eiginlega endað hefði ég ekki greinst þarna.
En þetta er vandamálið, maður veit ekki neitt. Ég hélt bara að ég væri löt og aumingi.
Ég vissi ekkert um þunglyndi. Það litla sem ég hélt að ég vissi voru ranghugmyndir og fordómar. Og í því held ég að þjóðfélagsmeinið liggi. Fræðsla um þunglyndi þarf að sjálfsögðu að vera allsstaðar, ekki síst í landi sem liggur norður undir heimskautsbaugi og er með sjálfsmorðstoll á við okkar. Ég er ekki í neinum vafa um að þessi sjúkdómur tekur fleiri mannslíf á ári hverju heldur en umferðin. Og spilar sjálfsagt inn í mörg dauðsföll sem opinberlega eiga að heita að séu vegna fíkniefnaneyslu. Það þarf forvarnir gegn þunglyndi.
Hluti af þeim þarf að vera að útrýma fordómum. Það er í eðli þunglyndis að sjúklingar reyni að fela það, til þess að þurfa ekki að takast á við það. Það gengur ekki að við bætist að maður þurfi að fela það fyrir samfélaginu vegna fordóma. Það þarf að kenna þunglyndisfræði í skólum. Sem og skattaskýrslugerð.
Nokkur atriði:
- Þunglyndi er ekki það sama og fýla. Maður getur alveg verið kátur framan í fólk þó maður sé drulluþunglyndur. Þunglyndi snýst um hvernig manni raunverulega líður, en ekki hvernig aðrir halda að manni líði. Þess vegna er enginn í betri aðstöðu til að fylgjast með gangi sjúkdómsins en sjúklingurinn sjálfur.
- Þunglyndi er ekki það sama og aumingjaskapur. Þunglyndi orsakast af því að serótónínframleiðslan í heilanum á manni fer í eitthvað fokk. Þetta á sér stundum ákveðnar orsakir, stundum ekki. Ef þetta hefur einu sinni gerst er aukin hætta á að það gerist aftur. Og það er ekki eins og menn fái þunglyndi að gamni sínu, eða vegna þess að þeir "nenni ekki". Þetta er hins vegar tilfinning sem sjúklingurinn sjálfur glímir gjarnan við.
- Þunglyndi er geðsjúkdómur. Og geðsjúkdómar eru alveg jafn "miklir" sjúkdómar og aðrir sjúkdómar. Mér finnst maklegt og réttvíst að líkja þunglyndi við fótbrot þegar ég finn fyrir fordæmara í sjálfri mér eða öðrum.
- Þunglyndi lagast ekki af sjálfu sér. Það er hægt að fara í göngutúr eða fá sér súkkulaði og kikkstarta framleiðslunni í einhverjar mínútur eða klukkutíma, en vandamálið er samt enn til staðar. Eins og ef maður er fótbrotinn. Brotið grær kannski saman þó maður láti ekki setja sig í gifs. En það er lengur að því, getur gróið vitlaust... og hversu gáfulegt er það að fara ekki til læknis ef maður veit að maður er fótbrotinn?
- Þunglyndi kemur næstum alltaf aftur. Það getur legið í dvala, jafnvel árum saman. Að því leyti er það eins og krabbamein. Stundum er hægt að sjálfshjálpa sig út úr vægu þunglyndi, en þá verður maður að greina það snemma og vita hvað maður er að gera. Að detta íða er til dæmis alls ekki lausnin.
Þetta rant mitt er að sjálfsögðu ekki unnið upp úr neinum formlegum heimildum, heldur aðeins upplifun minni á sjúkdómnum. En ég vona að ef eitthvað af þessu ranti mínu hringir einhverjum bjöllum hjá einhverjum lesanda þá rífi hann sig upp á rassinum og fari til læknis. Ég meina, maður fer til læknis ef maður er með hor í lungunum lengur en manni finnst þægilegt. Er ekki enn mikilvægara að fara til læknis út af "hori" í heilanum?
Það eru til nokkrar meðferðarleiðir. Þær sem ég hef mest heyrt um eru annars vegar lyf og hins vegar samtalsmeðferðir. Ef manni finnast lyfin ekki virka eins og manni finnst þau eiga að gera er aðeins eitt ráð við því. Tala aftur við lækni. (Tek þetta fram vegna þess að ef maður er mjög þunglyndur finnst manni þetta hreinast ógjörningur.) Ég hef ekki prófað samtalsmeðferð sjálf, en hef trú á svoleiðis og ætla að reyna að koma mér í svoleiðis í einhverju kastinu. Vegna þess að, og hér kemur uppáhaldssetningin mín: "Hvernig á ég að vita hvað ég er að hugsa fyrr en ég heyri hvað ég segi?"
En hér er svona "almennilegt" efni:
- Vefhluti um þunglyndi
- Sjálfspróf til að athuga hvort maður sé haldinn þunglyndi (Mjög gott að taka annað slagið ef maður á vanda til þunglyndis, eins bara ef maður er eitthvað súr. Það er allavega aldrei hættulegt.)
- Þunglyndispróf Goldbergs
- Grein á doktor.is
- Landlæknisembættið – Þjóð gegn þunglyndi
- Fræðsluefni Landspítalans um þunglyndi
Og svo nenni ég ekki að linka meir. Örugglega út af þunglyndi.
28.9.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Svo hár rétt...
Takk... fyrir að skrifa þennan pistil. Til þess þarf kjark. Mikil sannleikur, Sigríður!
Sammála þér Sigga, þarf að fræða fólk betur um þetta. Takk. Herdís.
Þú ert snillingur, ég á örugglega eftir að benda oft á þennan pistil.
Í rauninni, eins og þú bendir á, er ekkert athugavert við það að vera þunglyndur. Frekar en það að eitthvað athugavert sé að vera sykursjúkur. Eða með skjaldkirtilssjúkdóm. Og af því að þú kallar þetta svarta Hundinn, sem mér finnst fín samlíking þá er fyrsta skrefið að fara með stóra svarta fallega hundinn sinn í göngutúr og segja: hér er ég með mitt þunglyndi!
Þá fyrst getur ´manni liðið ögn betur. Og oft þarf ekki nema þetta "ögn" til að ýta manni til læknisins, eða í jógað eða hvað það nú er sem hjálpar hverjum og einum til að líða betur.
Alkóhólistar sem tekst að vera þurrir segja: ég heiti X, ég er alkóhólisti. Það hjálpar. Það hjálpar líka að segja: Ég heiti X, ég er þunglyndur.
Þá er vandinn nafngreindur og hægt að eiga við hann.
Takk Sigga Lára fyrir þennan pistil.
Ég er vinkona systur þinnar Hugrúnar og mikill aðdándi þinn. Les blöggið þitt reglulega.
Þessi skrif þín núna um þuglydnið hafa hjálpað mér og vinkonu minni. Við höfum báðar glímt við þuglyndi á mismunandi tímum.
Mjög góður pistill, Siggalára. Takk fyrir.
Þekki þetta af eigin reynslu og varðandi sjálfshjálpina þá er ég viss um að einstaklingar sem hafa styrk og vilja til geta unnið vel í sínum málum og jafnvel orðið heilir af þunglyndi. Reyndar er vilji til að losa sig undan þunglyndinu forsenda þess að það sé mögulegt. Undirmeðvitundin getur jafnvel sagt manni á seinni stigum meðferðar að það sé hættulegt að losa sig við þunglyndið vegna öryggisins sem felst í vissunni sem því fylgir: maður veit hvað maður hefur og er laus við óvissu. Því þurfa menn að vera vel meðvitaðir um sínar tilfinningar og hugsanir til þess að hægt sé að vinna á þessum fjanda.
En ég er viss um að góðir lifnaðarhættir, hvort sem það eru efnislegir eða andlegir, eru besta leiðin til að vinna í þessu. Pillur geta verið ágætt stoðtæki.
Takk fyrir aftur.
Skrifa ummæli