9.10.06

Lallallallallallalla...

Eru engir aðrir en ég með nýja titillagið úr Stundinni okkar á heilanum langt fram á mánudag?

Við Freigáta fórum í dag og fjárfestum í þessum fínu pollabuxum handa henni fórum svo með hana til skriðæfinga við Kristkirkju, sem er orðinn hápunktur daxins hjá okkur báðum. Svo fór hún í rennibraut og við róluðum. Þetta gerði alltsaman geðveika lukku.

Leikritið mitt fyrir austan er víst farið að heita eitthvað og ég fer líklega til þeirra til að vinna meððeim íðí um næstu helgi eða þarnæstu. Reyndar misstu þau aðalleikkonuna um daginn, en það er allt í lagi, frænka hennar tók bara við hlutverkinu. Hefur einhver séð einþáttungirnn einræktun er hreinræktun? Þetta er allt hvað undan öðru.
En ég veit ekki ennþá hvenær á að frumsýna... gleymi alltaf að spurja að því.

Annars er eitthvað þunglyndi, sennilega skammdegis-, eitthvað voða mikið að bögga mig. Sem lýsir sér þannig að suma daga finnst mér allt vera vesen. Líka það sem mér finnst venjulega skemmtilegt. Og það er algjör synd af því að þessa dagana er ég bóxtaflega ekki að gera neitt sem mér finnst leiðinlegt. (Eða allavega fátt ;-) Börnin eru sæt. Rannsóknarskipið alltaf sama æðið. Vinnan skemmtileg. Og... það þarf ekkert að skúra stofuna. Ég er meiraðsegja búin að skrifa Ríkisskattstjóra vegna leiðréttinga sem ég þarf að láta gera á skattaskýrslum síðustu tveggja ára. (Fyndið bréf sem byrjar á: Kæri herra Ríkisskattstjóri.)
Ég fór að hitta heimilislækninn minn í dag, og hann ætlar að reyna að koma mér að í "hugræna atferlismeðferð" sem ku vera mjög í tísku. Hann sagðist hafa verið sendur á námskeið til að kynna sér þetta og sagði að þetta virkaði alveg fyrir suma. Mig langar allavega að prufa. Ætti kannski að láta systur mína sálfræðinginn setja mig í svoleiðis í staðinn fyrir að ég tek alltaf upp fyrir hana Beverly Hills 90210? Sem bendir reyndar til þess að hún þurfi einhverskonar atferlismeðferð...

Við erum að byrja að mjaka pappírum á rétta staði til að þokast í áttina að því að geta sótt um greiðslumat. Ég hlakka bara til að fara í aðra íbúð. Þó hún verði minni.
Já, ég er nýjungagjörn.

Óska annars Nönnu og Jóni Geiri til hamingju með nýju íbúðina sína, sem ku vera raðhús í Mosfellsbænum. Já, við erum öll að ferkantast.

3 ummæli:

Bára sagði...

Já! Ég sá Einræktun er hreinræktun fyrir löngu. Snilld!

Er að koma í heimsókn bráðum.

Gangi þér vel í geðræktunarmeðferðinni.

fangor sagði...

takk fyrir. og skemmtu þér í hugrænunni.

Nafnlaus sagði...

Þetta var nú frekar fyndið. Ég var barasta akkúrat að tralla upphafsstefið góða út um alla höfuðkúpu þegar ég rakst á þessa færslu. Og það er mánudagskvöld!!!??? (Var að vísu að hlusta á stefið í tölvunni minni áðan - maður er svo innmúraður).