6.10.06

Pöbblissití

Stundum er maður einhvern veginn úti um allt. Þá verða bloggfærslur símskeytakenndar.

- Fyrsta Mánaðarleg Hugleix í Þjóðleikhúskjallaranum heppnaðist með afbrigðum vel. Stop. Er, kannski ekki beint í tilefni af því, heldur bara, að fara í Moggaviðtal ásamt fyrrverandi formanni, í næstu viku. Við ætlum að monta Hugleik.

- Á öðrum, en samt svolítið sama, vettvangi, skrauf ég þessa grein í dag. Enda er þetta náttlega hneisa. Það er voðalega auðvelt að þykjast ætla að skila tekjuafgangi í ríkissljóð með því að klippa hundraðþúsundkalla og hálfarmilljónir af fjárframlögum, hér og hvar, og ímynda sér að enginn taki eftir því. En hinn fjársvelti heimur áhugaleiklistarinnar finnur mjög gjörla fyrir hverjum þúsundkalli. Fussumsvei.

- Bærinn er skrítinn, hann er fullur af húsum. Þó er hann enn fyllri af grasflötum sem enginn er nokkurn tíma á. Nema kannski á nóttunni þegar unglingar borgarinnar ku koma þar saman til að míga, skíta, gubba og sprauta sig, eftir því sem þeir ferkantaðri af eldri kynslóðinni vilja halda fram. Við Freigáta erum í löngum gönguferðum að skoða húsin í Vesturbænum þessa dagana. Í dag ákváðum við að taka eina svona grasflöt, þar sem pissulykt og sígarettustubbar voru í lágmarki, og brúka til skriðæfinga utandyra. Það er ekki von að vel fari, fyrir fyrstu kynslóð á mölinni. Skömm frá því að segja að þetta var í fyrsta sinn sem barnunginn fékk að hreyfa sig um úti í "náttúrunni" eftir að hún lærði að skríða. Tilraun þessi mæltist vel fyrir. Freigátan fór um á fleygiskriði og smakkaði á ýmsu gróðurkyns og einu tyggjóbréfi. Paradísarheimt.
Fljótlega kom þá að því að halda þurfti heim á leið þar sem móðurskipið hafði hreint ekki haft huxun á því að klæða barnið til útiskriðæfinga í garranum. Paradísarmissir. Einsöngstónleikar voru haldnir alla leiðina heim. Og annað slagið síðan. Kannski er að koma tönn...

- Og svo er líklega best að fara að eigin ráðum. Eftir að hafa skrifað þessa fínu og meðvituðu þunglyndisgrein er ég loxins búin að panta tíma hjá lækninum mínum til að ræða meðferðarúrræði. Einkenni undanfarið hafa svosem ekki verið mikil, og örugglega ekki mjög sýnileg. Enda er það sjálfsagt mörgum eðlilegt að vera lengi á lappir á morgnana, leikstýra ekki í októberprógramminu og finnast heimurinn farast pínulítið í hvert sinn sem maður þarf að gera eitthvað. En Minn Rétti Karakter er einfaldlega ekki þannig. Og mig langar ekki að enda með sófafílíu og veraldarfælni í þetta skiptið. Svo það er um að gera að taka í hornið á geitinni og snúa hana niður strax. Enda langar mig að sleppa við að þurfa lyf, nú hef ég huxað mér að kanna "möguleika á öðrum meðferðarúrræðum" eins og það hét í Kastljósinu í gær. Á Degi Geðheilsunnar finnst mér það bara passa.

- Stórleikarinn Smábátur brunaði norður yfir heiðar með föðurfólkinu sínu, sem upplifði sitt fyrsta Mánaðarlega hjá Hugleik í gærkveldi og var enn uppnumið af hamingju áðan. Bátinn endurheimtum við á sunnudaginn.

- Ég ætlaði alveg örugglega að tjá mig eitthvað fleira, en litla Freigátan er alltaf að vakna og gráta þannig að samning þessa pistils er búin að taka hálft kvöldið. Og ég man ekki neitt lengur. Já, ég held það sé örugglega að koma tönn.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já þetta er fín grein hjá þér Sigga mín á leiklist.is en hefði samt verið best ef ekki hefði þurft að skrifa hana... ég fer líka í skoðunarleiðangra um græn svæði Akureyrar þessa dagana með hundinn Kisa, sem er nýjasti heimilismeðlimurinn. Knús til Gyðu duglegu og ykkar;-)

Sigga Lára sagði...

Hihi. Hundurinn Kisi... Í tilefni af því ætla ég að skíra köttinn, sem ég ætla reyndar aldrei að fá mér, Voffa