Byrjum á því fyrrnefnda:
1. Auðveldara er að hjóla niður en upp.
2. Erfiðara er að hjóla en labba, en maður verður fljótari og sveittari...
3. ...og fær killer rass á því.
4. Betra er að hjóla á nýju hjóli en gömlu sem hefur bara einn gír og lætur ískra svo hátt í bremsunum á sér að maður lætur frekar vaða á næstu gömlu konu en að nota þær.
Þess vegna fjárfesti ég í hjólhesti í gær. Hann er fagurgljáandi, en fótbremsunum fórnaði ég fyrir risabreiðan hnakk sem allur rassinn á mér kemst uppá. Á því er líka 21 gír, sem ég komst að á leið í vinnuna að virkar reyndar misvel. Þard sennilega að fara strax með fákinn í "uppherðingu". (Já, ég er búin að læra hjólamál.) En það var einmitt innifalið. Þá er bara að æfa sig aðeins meira til þess að Freigátan geti farið að fá barnastól aftaná. Svo er Rannsóknarskipið að fara að fá hjól ofan úr Borgarfirði, svo þá getur fjölskyldan farið út að hjóla saman eins og í auglýsingu frá Umferðarráði.
Annars fór ég að sjá Máfinn hjá Sýnurum í Elliðaárdalnum í gærkvöldi. Það var bæði blautt og kalt, en maður tók nú minna eftir því þar sem menn voru sífellt að girða niður um sig á sviðinu. Skemmtilegur Tsjekkoff þetta, vafalaust það sem höfundur hafði í huga þegar hann skrifaði þennan gamanleik. Hið besta mál. Og svipirnir voru einnig skemmtilegir á útivistarfólki sem leið átti framjá og sá Sýnara, oftar en ekki með niðrum sig, í miðju rjóðri.
Og mamma mín á afmæli í dag. Til hamingju með það. Svo ætlar hún að koma suður eftir viku og skoða okkur aðeins áður en hún fer til fundar við föður minn, nemandann, í nágrenni Bifrastar.
11.8.06
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Já, blautt og kalt. Vertu samt fegin að þú þurftir ekki að standa upp á endann allt leikritið með vídeóvél í annarri hendi og regnhlíf í hinni. Það sem maður lætur hafa sig út í... Og skilaðu hamingjuóskum til mömmu þinnar.
Fyrir um 12-13 árum síðan bauð danskur grínisti sig fram á þing með það aðal loforð til danskra kjósenda að hjólreiðafólk fengi alltaf meðvind.
Auðvita náði hann kjöri og sat á þingi í 4 ár!
Og Bubbi kóngur sagði í sinni fyrstu ræðu (að vísu ekki eftir kosningu heldur grimmilegt valdarán): Fyrst snúum við okkur að efnahagsmálunum og síðan ætla ég að kynna nýja aðferð sem ég hef fundið upp til að láta koma gott veður og hætta að rigna.
Skrifa ummæli