16.1.07

Næstum hamfarir

Þegar maður stendur fyrir framan vaskinn á baðinu, með skrúfað frá krananum, og verður allt í einu blautur í tærnar, þá er það sjaldan góðs viti. Þetta kom einmitt fyrir mig á aðfangadag. Ég kaldsvitnaði, sá fyrir mér sprungnar pípur, rakaskemmdir niður í kjallara, uppbrotið baðherbergisgólf og síðast en ekki síst himinháa reikninga frá ótal óprúttnum iðnaðarmönnum.

Við vorum búin að reyna að hunsa ástandið og vona að það hyrfi, eins og maður gerir. Þangað til Rannsóknarskip fór loxins á fjóra fætur, í gær eða fyrradag, og gáði undir baðinnréttinguna. Þar reyndist vera niðurfall sem búið var að kítta í, samt ekkert sérlega vel. Það með var mörgum tonnum af okkur létt. Engin sprunga í neinu, alltsaman stífla á einhverjum eðlilegum stað. Sjúkkett.

Rannsóknarskip fór í niðurfallsköfun í dag og dró upp heilan helling af þvílíku ógeði. Það var ekki nóg.

Við Smábátur og Freigáta gerðum út leiðangur og fórum í BYKO með þá síðarnefndu á snjóþotu. Það þótti bæði henni og Smábát ekki neitt smá spennandi skemmtan. Greinilega vel hægt að senda þau saman út að skemmta sér í snjónum, hvað úr hverju. Allavega ég verslaði mesta baneitur sem ég fann í BYKO. Það var í svartri flösku með hauskúpum og átti að éta sig í gegnum hvað sem fyrir yrði.

Þegar heim kom var hroðanum hellt í niðurfallið og baðherbergið yfirlýst bannsvæði öllum lífverum. Eftir smástund heyrðist "ZVÚBB" og enginn verður framar blautur í tærnar við að bursta tennurnar heima hjá okkur. Nema hann sé akkúrat í fótabaði á sama tíma. Og við þurftum ekki einu sinni stíflumann. Ég er ekkert smá fegin.

Ég er með þá kenningu að þetta hafi verið rotta.

2 ummæli:

Spunkhildur sagði...

Einmitt það sama og mér datt í hug...

Lifur sagði...

Áfram BYKO!