15.1.07

Gufan og hvíthyskið

Systir mín sálinn hefur stundum misst sig í hneyxlan þegar hún hefur heimsótt okkur að degi til. Þá bregður nefnilega stundum (ja, næstum alltaf) þannig við að það er kveikt á sjónvarpinu. Ég held hún hafi verið komin á fremsta hlunn með að kæra okkur fyrir barnaverndaryfirvöldum fyrir að vera hvíthyski.

Og gallinn er sá að ég er að vissu leyti sammála henni. Mér finnst óttalega hyskilegt að hanga fyrir framan imbann á daginn. Þannig voru hins vegar aðstæður á Tryggvagötunni að það hú stendur allt í einhvers konar "útvarpsskugga" þannig að þar næst ekki nokkur hlutur almennilega með loftneti. Þannig að sjónvarpið, gegnum ADSL gegndi stundum hlutverki útvarps, þar sem ég nennti sjaldan að dídjeija mig í gegnum daginn. Svo var ég líka með gegnumgangandi áhorf á Friends og fleira uppbbyggilegt við brjóstagjafir og Dr. Phil og allskyns. Nú er þessu öllu aflokið, en samt komið upp í vana að hafa imbann á öllum stundum. Einnig þar sem á Skjánum má fá ókeypis barnaefni eftir pöntun, og stundum er hægt að láta Freigátuna sitja kjurra, stund og stund, yfir Brúðubílnum. (Já, það er svolítið hrollvekjandi.)

En þetta er ófremdarástand. Sérstaklega þar sem í gangi eru aðgerðir til að fá Smábátinn frá skjátækjunum stund og stund, en hann er af kynslóðinni sem færi aldrei út tölvunni ef hann þyrfti ekki í skólann. Allavega, það er orðið erfitt að predika um ofgláp á skjátækin án þess að vera góð fyrirmynd.

Þessvegna hef ég verið að reyna að breyta munstrinu á seinnipörtunum, stíga hin örlagaríku skref að slökkva á sjónvarpinu og kveikja á Ríkisútvarpinu, Rás 1. Það er algjörlega að virka. Ég er orðin húkkt á miðdegissögunni, og hinum ýmsustu dagskrárliðum. Og svo er bara eitthvað við það að sitja og prjóna með klassík og menningarefni í útvarpinu. Mér líður hálfpartinn eins og ég sé amma mín. Og það er nú ekki leiðum að líkjast.

Í gær komst ég síðan að því hvað ég er höfundaglögg. Þegar ég kveikti á útvarpinu var sakamálaleikrit. Ég hlustaði með öðru. Fannst ég nú kannast við tóninn, auk þess sem efni og persónur bentu mér mjög ákveðið á ákveðinn höfund. Leikritið var þar að auki alveg þrælspennandi og hélt mér við efnið alveg fram að afkynningu. Og, viti menn, höfundur Ingibjörg Hjartardóttir. Reyndar kannski ekki svo erfitt að giska. Persónur voru jarðskjálftafræðingar sem voru að berjast gegn álversframkvæmdum...

Engin ummæli: