Reis seinni partinn eins og fuglinn Fönix af sveittum sjúkrabeði og þreif meirihlutann af heimilinu. Rannsóknarskip sagði að ég væri góð húsmóðir. (Þar hefurðu það, mamma!) En svo sagði hann ekki fleira þar sem söngkennarinn hans er búinn að skipa honum að þegja í viku. Hann fer létt með það.
Ég er búin að komast að því hver drap Eitthvað Lávarð, og er búin að gleyma því aftur. Það er sjálfvirkur búnaður í hausnum á mér sem gerir mér kleift að lesa sömu bækurnar aftur og aftur. Talandi um það, ég er reyndar búin að setja sjálfa mig í straff og fæ ekki að lesa neina bók sem ég hef lesið áður á þessu ári. Gengur vel. Er búin með hálfan Dalai Lama (sem ég lánaði síðan atvinnulausu systur minni), Alkemistann og er komin vel á veg með Veronika ákveður að deyja. Inn á milli hafa síðan smeygt sér tvær áður ólesnar Agötur. (Man ekki hvað hin hét.) Mér fannst Alkemistinn svosem ágætur. Enginn Birtíngur samt.
Er búin að komast að því að ef maður les "nýjar" bækur gerir maður sér miklu betur grein fyrir hvað maður les nú asnalega mikið.
Svo vorum við að klára Angel í gær. Endanlega, huxa ég. Mér fannst hann klénn. Ég held ég sé vaxin upp úr Joss Whedon.
Heiða fær hér með móralskan stuðning til að reyna að halda áfram að lesa Grámosinn glóir. Hef samt enga trú á öðru en að það sé alveg hreint hroðalega leiðinleg bók. Bara titillinn gæti svæft mig.
25.1.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
3 ummæli:
Ég gerði hraustlegt áhlaup á Grámosann þegar hann kom fyrst út en lá óvígur eftir. Mikil ógn og skelfing sem maðurinn getur ritræpast.
Hvaða hvaða, Grámosinn er eina bók Thors sem ég gat nokkurn tímann lesið. Mig minnir meira að segja að mér hafi þótt nokkuð til koma.
Og Siggalára, hvað meinarðu með að vera komin langt með Veróniku? Hún er bara eins síðdegis lesning (með sjónvarpið á).
Alkemistinn hins vegar ...
Berglind Steins
Tek undir með Berglindi, las Grámosann þegar hann kom út og hafði þá aldrei lesið neitt eftir TV. Fannst bókin æðisleg og hugði mér gott til glóðarinnar við lestur allra hinna bóka hans. Reyndi við Fljóttfljóttsagðieinhver...Morgunþulaísárum...og eitthvað fleira áður en ég gafst endanlega upp og sneri mér að öðru. En Grámosinn blífur og fyrir það fær Thor stjörnu hjá mér. Þess utan er kallinn flottur í júdó og þorir að vera töffari.
Skrifa ummæli