1.2.07

Flagmeri!

Á laugardaginn næstkomandi, kl. 16.00, borgar sig nú aldeilis að hækka vel í viðtækjunum og leggja eyrun við. Þá verð ég nefnilega gestur í fimbulfambþættinum Orð skulu standa í Ríkisútvarpinu okkar. Það verður nú alveg örugglega reglulega skemmtilegt. Aldrei að vita.

(Glætan eitthvað að ég væri að segja frá þessu ef ekki væri búið að taka þáttinn upp og ég skammaðist mín ekkert.)

Allavega. Það var gaman.

Á morgun bíður mín alveg ný tegund af grasekki. Rannsóknarskip ætlar norður yfir heiðar og hafa litla flotann meðferðis. Móðurskipið verður því aleitt í kotinu um helgina. Það hefur huxað sér að haga sér eins og framakvendi og eyða helginni á námskeiði og í vinnunni. En þetta verður nú skrítið. Ég hef verið aðskilin frá Freigátunni eina helgi síðan hún fæddist, og þá var ég á Bandalagsþingi á Selfossi og var svo full að ég tók eiginlega ekkert eftir því.

Og að lokum:
Tónleikar í Neskirkju klukkan 20:00. M.a. flutt nýtt lag eftir systur mína tónskáldið. Tónleikarnir verða búnir áður en Desperate Housewifes byrjar og 1.500 krónur kostar inn. Ég ætla að vera þar.

5 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Vei en gaman! Ég hlusta oft á þennan stórskemmtilega þátt, það verður sko örugglega hlustað á laugardaginn :-)

Nafnlaus sagði...

Og ef ég man rétt þýðir flagmeri einmitt nýgotin hákerling og kemur hestum ekkert við ...

Berglind Steins

Sigga Lára sagði...

Varir mínar eru síld. Þetta var bara tíser.
Ég veit hins vegar um slatta af atburðum þar sem ég hefði gjarnan viljað kunna þetta orð...

Spunkhildur sagði...

ég er líka ein í koti, með kaffi og súkkulaði

Berglind Rós sagði...

Hahahaha nú sprakk ég úr hlátri! Allan tímann á meðan var verið að spila fyrra lagið hugsaði ég hvað það myndi nú vera fyndið ef þú fengir þetta lag, sjallalallala, uppáhaldið þitt til áratuga ef ég man rétt :-D Góð annars með tvistinn og áfram :-)