22.3.07

Montpellier


Ég efast um að ég fari nokkurn tíma þangað aftur. Ekki nema ég eigi leið hjá. En í nótt dreymdi mig þangað. Þegar mig dreymir Montpellier er fólkið þar samt aldrei fólkið sem ég umgekkst þar, heldur tek ég fólk héðan með mér. Sem er svolítið skrítið. Ég umgekkst margt fólk mikið þar. Svona 6 Íslendinga og þrjúhundruðmilljón útlendinga. Og Montpellier er óttaleg járnbrautarstöð þannig að flestir sem ég þekkti þar eru sennilega farnir núna. En ég man ekki einu sinni greinilega hvernig þetta fólk leit út.

Ég tók engar myndir á þessum tíma. Bloggaði ekki eða skrifaði neins konar dagbók, og það er einhvern veginn enginn til frásagnar. Mér fannst ég eiginlega ekki gera neitt af viti þennan tíma. (Var reyndar slatta í skólanum, fékk fínar einkunnir, sem segir reyndar meira um Paul Valery-háskólann heldur en mína námsiðni, og kláraði næstum Mastersritgerðina mína, fattaði það bara ekki af því að hún var á vitlausu línubili...) En mig minnir að þarna hafi dagarnir meira og minna liðið á einhverju kaffihísakjaftæði, heimspekilegum vangaveltum á ýmsum tungumálum, og málfræðiþanka. (Lenti einhverra hluta vegna inn í einhverja kreðsu þýðenda og málfræðinörda... skrítið hvernig það er alltaf að gerast...) Hefði örugglega verið fyndið að blogga á þessum tíma. Sennilega fátt vitrænt, en því fleira skemmtilegt komið út úr því.

En nú er þetta alltsaman löngu liðið og aldrei það kemur til baka. Og ég er búin að gleyma og týna næstum öllu sem gerðist. Og langar ekki einu sinni sérstaklega að fara þangað aftur. Nema ef ég gæti farið til baka í tíma og öjlast byrjað að blogga eins og tveimur árum fyrr...

Kannski ég skrifi artífart minningabrotaljóð? Hmmmm...

Engin ummæli: