25.4.07

...með útivist og fersku lofti

Fyrstu árin sem ég starfaði hér á Bandalaginu tók ég strætó í vinnuna. Hann stoppaði á Hlemmi. Þetta var í gamla daga þegar Keisarinn var hérna rétt hjá. Þá voru iðulega einhverjir á Hlemmi, á morgnana, sem voru að bíða eftir að hann opnaði.

Síðan ég flutti vestur í bæ, eftir endurkomu mína, liggur heimleiðin mín í gegnum miðbæinn. Ég hef því endurheimt innsýn mína í rónaflóru landsins. Það er bara einn sem ég kannast við frá því í "gamla daga." Og hún er kona. Á sama tíma og ég hef elst um átta ár hefur hún elst um áttatíu. Einu sinni heyrði ég hana tala við einhvern, í strætó. Hún var að bjóða þessum kunningja sínum í heimsókn, á Herinn, en tók það fram að hún ætlaði ekki að bjóða honum í glas, þó hún ætti pela, því hún ætlaði að eiga eitthvað til helgarinnar.

Ég velti aðeins vöngum yfir þessu. Sé maður rónafólk, í fullu starfi, þykir manni samt ástæða til að einbeita fylleríum á helgar? Eitthvað segir mér nú samt að henni hafi gengið illa að spara umræddan pela til helgarinnar, blessaðri.

Ég kannaðist nefnilega eitthvað við þessa tilfinningu. Ég man þegar ég var í menntaskólanum, og maður þurfti að láta kaupa fyrir sig áfengi á Seyðisfirði. Ef maður var nú til dæmis búinn að því á fimmtudegi, og tóxt kannski líka að klára alla stærðfræðina OG eðlisfræðina, snemma, þá var nú ekki alveg víst að neitt mikið lifði fram á föstudag... (Tekið skal fram að börnin mín verða flengd á Arnarhóli ef þau ætla að fara að verða eins drykkfelldir unglingar og ég var.)
En núna? Áfengi liggur ósnert upp um alla veggi heima hjá mér, mánuðum og árum saman, án þess að ég taki eftir því.
Er hægt að vaxa upp úr alkóhólisma?

Aftur að rónaflórunni. Ég geri mér alltaf far um að ganga nálægt þeim og hlera . Mér þykja þau svolítið merkileg, þetta fólk sem gerir sér ferskt loft og útivist að ævistarfi.

Einu sinni vorkenndi ég þeim. Svo áttaði ég mig á því að þau vita öll hvar Vogur er. Einhver þeirra vita að þau eiga að taka geðlyfin sín. Þau gætu ekki lifað af við þessar aðstæður með alvarlega greindarskerðingu. Þau halda kannski að þau hafi enga stjórn á lífum sínum, en þau hafa hana.
Það er ekki hægt að synda "óvart" á móti straumnum.
Þau velja að sitja frekar á bekk og drekka bjór, heldur en að fara í bað. Þau vilja frekar vera full en vinna hjá Kaupþingi eða í álveri.
Einhvern tíma heyrði ég einn þeirra segja, í samtali við mann sem var að segja honum að fara nú "að gera eitthvað í sínum málum":
"Já, en, það er bara svo erfitt..."

Við hin vinnum vinnurnar okkar, þvoum fötin okkar og borgum húsnæðislánin. Er það endilega auðvelt? Ég er svolítið búin að átta mig á valfrelsi rónaflórunnar. Og allra fíkla, ef út í það er farið. Ég held kannski að menn átti sig misvel á því að maður þarf stundum að gera fleira en gott þykir.

En áhugi minn hefur ekkert dvínað. Hvernig fara þau að þessu? Að hanga bara? Kannski mánuðum saman. Og ef þau eru á leiðinni eitthvert, þá hefur það ævinlega á sér gífurlega áríðandi yfirbragð. Þá ganga menn ábúðarmiklir um miðbæinn og eiga "erindi". Þegar slær í brýnu fer það ekki framhjá neinum í tíu metra radíus. Öll gleði og sorg er höfð til sýnis þar sem þau eru stödd.

Það er reyndar búið að gera heimildarmyndina "Hlemmur", en ég væri alveg til í að sjá mynd þar sem þeim væri fylgt eftir í svosem eins og sólarhring eða viku. Bara til að gá hvað þau gera. Án þess að dæma eða fordæma, hægri eða vinstri. Án þess að menn séu nokkuð að mjólka "mannlega harmleikinn" út úr aðstæðunum. Eða birta tölulegar sjokk-upplýsingar um hve oft þessi eða hinn hafi farið í meðferð, hve mörg börn viðkomandi hafa yfirgefið eða komið mömmu sinni til að gráta. Mynd sem gleðst bara, reiðist og syrgir með hinum ofurdramatísku viðföngum sínum og bætir í mesta lagi við heimspekilegum vangaveltum.

Gummi? ;-)

[Tileinkað fjölskyldumeðlimnum fyrir westan ekki tilheyrði rónaflórunni, en féll þó nýlega fyrir hendi Bakkusar.
Hvíli hann í friði.]

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sigga þú bara tekur þig til og gerir svona heimildamynd, alveg eins og þú vilt hafa hana. Ertu ekki hvort sem er alltaf að skrifa leikrit? Er ekki upplagt að æfa sig að skrifa heimildamyndahandrit næst??

Nafnlaus sagði...

Sko til! Ansi kemurðu stundum skemmtilega á óvart.
Svona hugleiðingar eins og þínar eiga hinsvegar lítið upp á pallborðið í þessu þjóðfélagi hins óhefta umburðarlyndis þar sem enginn ber lengur ábyrgð á eigin gerðum heldur þjáist í mesta lagi af einhverjum þeirra ótal sjúkdóma (fíkna) sem hafa skyndilega orðið til á síðustu 30 árum eða svo.

Nafnlaus sagði...

Já. Ég hef líka töluverðan áhuga á rónum. Var einusinni stödd á Hlemmi á sunnudagsmorgni skömmu fyrir kosningar. Þar sátu nokkrir rónar á bekk og einn róni stóð og messaði yfir hinum. Tjáði þeim að "sjálfstæðisflokkurinn væri eina vitið!". Þegar hann hélt sína leið sagði einn af hinum rónunum í hálfum hljóðum: "Hann er nú eitthvað klikkaður hann Nonni."

Rónar eru líka fólk.