Það er rigning í Reykjavík. Líka í Montpellier. Og ég er ekki enn búin að leggja í að fara og máta kínverska kjóla fyrir sýninguna í Þjóðleikhúsinu. Og veit ekki einu sinni hvort ég legg í það. Ég er hrrroðalega illa haldin af feitunni þessa dagana. Kannski enda ég bara í Kringlunni að leita að einhverju sem teygist... og mjókkar mann. Reyndar, kannski ágætis aðhald í þessu kínverska sem gefur ekki baun eftir... nema maður verði bara eins og rúllupylsa? Svo gæti alltsaman rifnað á rasssaumunum á leiðinni á Þjóðleikhússviðið... það væri nú hreint ekki gaman. Samt ferlega týpískt. Kannski maður öjlist niður í kínverskubúð í dag eða á morgun og máti. Þá stærstu og feitustu.
Annars dæmigert að vera með feituna í fyrsta sinn í mörg ár sem maður sér fram á að þurfa að troða sér í bikini. Þá sprettur appelsínuhúðin auðvitað alveg eins og laufið á trjánum og hverjar gallabuxurnar á fætur öðrum hlaupa í þvotti. Jæjajæja. Ég verð með fallegan mann með mér og sæt börn og vei hverjum þeim sem þykist eitthvað ætla að fara að horfa fram hjá allri þeirri fegurð og á feitu lærin á mér.
Freigátan hefur eignast ótrúlega sætt vegabréf, og passar annarra fjölskyldumeðlima fundust einnig, eftir mikla og dramatíska leit. (Nákvæmlega þar sem þeir áttu að vera, og búið var að leita að þeim, oft.) Í dag skulu ökuskírteini okkar hjónanna færast í nútímalegra horf, ef okkur skyldi detta í hug að leigja okkur bíl, einn eða tvo daga, í Frakklandinu.
Allur undirbúningur að klárast, enda eins gott, ég ætla að senda Rannsóknarskip á bifreiðinni norður á skóla, Smábáturinn verður mest af þeim tíma hist og her í útláni, en við Freigáta verðum heima að pakka og þrífa með dyggri aðstoð Ba frænku.
5.6.07
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli