22.6.07

Onlæn!

Hefi fjárfest í heimsins fegurstu tölvu, oggolitlum makka, og fékk hulstur utan um hann í kaupbæti. Svo græði ég líka i-pod shuffle á eina evru, þar sem ég tók í rælni við miða sem einhver miðakrakkinn var með úti á götu. (Svona miðafólk er alltaf úti um allt hérna, og hefur aldrei fyrr rétt mér neitt sem ég hef getað notað.) Lyklaborðið er að vísu allt á frönsku að utan og íslensku að innan, svo enginn stafur er þar sem hann þykist vera. En það er nú bara fínt. Núna sit ég á veröndinni á O'Carolans, litla pöbbnum "mínum" en restin af flotanum fór í Virgin Megastore að athuga hvort við getum ekki klárað að ýta fjölskyldunni almennilega inn í gjaldþrotið.

Við höfum það annars alveg ljómandi. Íbúðin okkar reyndist framar okkar björtustu vonum og konan sem á hana er einstaklega almennileg. (Enda hef ég hana grunaða um að vera ekki alfarið frönsk.) Ferðin hingað var löng og ströng, sérstaklega fyrir litlar Freigátur sem harðneituðu að sofa á Stansted flugvelli, en við erum nokkurn vegin búin að sofa úr okkur núna. Í gærkvöldi lentum við í smá erfiðleikum við að komast heim, en þá lömuðust allar samgöngur vegna Fete de la Musique, sem þá gekk í garð. Mér fannst reyndar takmarkað varið í það sem ég heyrði í gærkvöldi, of mikill hávaði og of lítil tónlist, en ég er nú líka gömul. Og, talandi um það, franskar konur eru hreint ekki jafngeðvondar við mann þegar maður er með krakkahrúgu, eiginmann, giftingahring og feitu, eins og þegar maður er ungur og brúnn og mjór. Núna eru þær ekkert nema hjálpsemin og almennilegheitin. Og franskir karlmenn eru hreint ekkert dónalegir lengur. Ég held ég sé búin að fatta málið. Og Frakkar eru skemmtilegri héðan frá séð.

Það var líka fjárfest í myndavél og ég reyni að urla hérna inn einhverjum myndum, ef mér text t.d. líka að stela interneti í garðinum við íbúðina okkar.

Farvel frá Frans

P.S. Verst að í þessari tölvu er bloggið mitt á frönsku... vona bara að ég reynist sleipari í frönskunni en Toggi í Kóreskunni...

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hafi einhverntíma verið ástæða til að óska tl hamingju er það núna.
Til hamingju með gripinn!

Nafnlaus sagði...

Njóttu lífsins í France.. ég öfunda þig ekkert *finguríkrossaftanfyrirbak* :þ Vorum sjálf að koma úr "smáferðalagi" alla leið hinum megin á landið þar sem notið var lífsins í heitum potti í Húsafelli í bara ágætis veðri :o) Éttu nokkra "creme brülee" fyrir mig! *sleeeef* og já nokkra karamellubúðinga með rjóma *enn meira sleeeeef* úff gæti haldið áfram að telja upp kræsingarnar... bara gott að þær setjast ekki á mínar mjaðmir núna hehehehe :o)