5.7.07

Hinar beinu, breiðu villigötur

Í mörg herrans ár hef ég flækst um löndin stór og smá. Ráfað fram og tilbaka um flugstöð Leifs Eiríkssonar, oftar en ekki í annarlegu ástandi sökum áfengisneyslu kvölds áður og lyktandi eins og öskubakki. Ýmist ein míns liðs eða í fylgd með fólki í síst skárra ástandi. Í gegnum allan þennan flæking hefur mér aldrei nokkurn tíma dottið í hug að smygla svo miklu sem tómum tyggjópakka inn í landið. Ég man eftir að hafa hent hálfum sígarettupakka, þar sem hann var fram yfir hámarks pakkafjölda. Og í öll þessi ár datt aldrei neinum tollverði í hug að gjóa á mig svo miklu sem einu auga.

En það er margt skrítið í höfðum tollvarðanna. Mér finnst nú ekki liggja alveg ljóst fyrir að grandvarlegar húsmæður úr vesturbænum með þreyttar fjögurra manna fjölskyldur í farteskinu séu grunsamlegri en þunnir og einhleypir heimshornaflakkarar. (Sem er reyndar algjörlega tilfellið þegar ég á í hlut.) Tölvan mín, hin nýkeypta, var grafin upp úr farangrinum á Keflavíkurflugvelli og upptæk ger. Nema hvað? Ekki nóg með það, heldur skyldu allar eigur mínar á himni og jörðu sem ég ekki gæti sannað með skjölum að væru eignir mínar, fara sömu leið, auk þess sem ég skyldi hýdd og tekin af lífi og börn mín brennimerkt sem glæpalýður. Eða þannig hljómaði það allavega í sómakærum eyrum mínum, sem aldrei hef lent upp á kant við eitt einasta lag. Mér segir svo hugur um að þetta verði endirinn á mínum örstutta, en þyrnum stráða, glæpaferli.

Mér var uppálagt að hringja í fyrramálið, og faxa kvittunina (sem ég fann auðvitað ekki í svipinn). Eftir að ég hafði eytt nóttinni andvaka af sálarangist yfir að hafa ætlað að vera svo ósvífin að snuða keisarann um helvítis fimmtíuþúsundkallin, eða hvað það nú var, hringdi ég til Suðurnesja, með sætblíðustu hunangsröddina á yfirsnúningi. Hitti á morgunhressan tollvörð sem sagði: "Æ, æ. Hvaða vandræði?" Og var hinn blíðasti á manninn. Sagði þetta nú ekki vera neinn heimsendi, og klykkti út með því að segja í afsakandi tón: "En líklega færðu ekki tölvuna fyrr en í næstu viku." Ég var búin að búa mig undir að sjá gripinn í fyrsta lagi aftur um jól, ef þá nokkurn tíma.

Það kom sem sagt að því að eitthvað fór að standa á sakaskránni minni. Tölvusmygl. Enda auðvitað fáránlegt að vera komin á fertugsaldur með hreint sakavottorð, eins og kjeeeling. Hefði svosem alveg mátt vera eitthvað kúlla. Í smá stund í gærkvöldi lá til dæmis við að hægt væri að skrifa MÁT (Morð Á Tollverði.)

En ég hugga mig við það að ég var þó allavega að reyna að smygla Makka. Ef PC-smygl væri á sakaskránni minni myndi ég hengja mig.

Af öðru:
Í dag, eftir umpakkningar, fara Rannsóknarskip og Smábátur norður yfir heiðar. Freigátan og hið glæpahneigða Móðurskip verða eftir heima að taka upp smyglvarninginn sem slapp í gegn. Verið er að vinna sig í gegnum tölvupóstflóðið, hægt og sígandi. Þeir sem eiga erindi gætu þurft að vera örlítið þolinmóðir í viðbót, þar sem glæpastarfsemin hefur tekið nokkurn Toll af framvindu morgunsins.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einhversstaðar held ég að sé tölvuþjálfaður hundur í Keflavík!

Lenti í svo til því sama þegar ég flutti frá Köben í haust, var í fyrsta sinn gripinn í gegnumlýsingu og þar sást Mac Miniinn minn í ferðatöskunni. Þar sem ég var að flytja heim eftir tveggja ára dvöl mátti ég strangt til tekið flytja tollfrjálst inn hluti að 100þúsund kr, en ég var ekki með neina pappíra til að sanna heimflutning minn.

Vaktstjórinn útskýrði þetta fyrir mér þungur á brún, en gaf svo skýrt til greina að hann væri að gera mér greiða með því að láta málið niður falla og spara mér þannig vesen og óþægindi.

Ég var svo ekki einu sinni litinn hornauga þegar ég kom frá Köben í haust - tölvulaus með öllu.

Berglind Rós sagði...

Að heyra þetta Sigríður Lára, þú ert nú meiri glæpahundurinn!

Velkomin heim annars. Svo þarf ég alveg hreint nauðsynlega að fara að hitta þig og drekka eins og fimmtán kaffibolla.