6.7.07

Ofurpían

Um hádegi sást í gólfið. Við Freigáta vorum búnar að vera talsvert duglegar þegar við fórum að taka á móti gestum. Vala vinkona og pabbi hennar komu í heimsókn og þær léku sér af gífurlegum krafti, gáfu hvor annarri kringlur og hnoðuðust. Alltaf jafngóðar vinkonur. Á meðan borðuðu móðir annarrar og faðir hinnar bakkelsi, og töluðu um líkamsrækt og megrun.

Síðan fór Móðurskipið á fund, en Hugga móða kom til að passa. Ekki lét hún sér duga að passa eins og hetja, heldur SKÚRAÐI HÚN NÆSTUM ALLA ÍBÚÐINA! Það er náttúrulega ekki hægt að láta hjá líða að monta sig af svona barnapíum. Og það með hástöfum. Þess vegna sit ég núna í tandurhreinni stofu og horfi á Battsjelorinn. En er ekki að skúra. Það er nú frekar skemmtilegt.

Og áfram um sjónvarpið. Hreinustu dásemdir að gerast. Gat ekki farið sérlega snemma að sofa í gær, þar sem Law & Order SVU var allt í einu komið á daxkrá. Þurfti að sjálfsögðu að skoðast á plúsnum á eftir DH. Búin að vera miður mín yfir að hafa náð að missa af þremur þáttum í Americas Next Top Model, en viti menn, sá næsti er upprifjunarþáttur! Til að fullkomna hamingju mína endanlega er Dr. Phil að byrja, klukkan 18 alla virka daga. Eftirmiðdagar hafa öðlast tilgang að nýju. (Annars finnst mér það almennt frekar tilgangslaus dagtími.)

Á mismenningarlegri nótum er síðan heill haugur af óáhorfðum (smygluðum) DVD-myndum í stórum stafla á eldhúsborðin. M.a. fyrsta sería af Ally McBeal, slatti af Shakespeare í ýmsum útgáfum og It. (Svo á ég reyndar líka Miss Marple. Gömlu krappí BBC útgáfuna með vondu leikurunum. Gjörsamlega elska þá. Reyndi að horfa á þá úti, en held ég hafi reyndar sofið yfir þeim flestum.) Vonandi er ekkert af þessu bara á frönsku. Við reyndum að tékka vel á því... en Frakkar hafa einstakt lag á því að blekkja mann.

Við Freigáta erum að jafna okkur af franska lystarstolinu. Það er góð lykt á Íslandi. Nema rétt á meðan maður labbar framhjá nokkrum börum á Laugaveginum.

Jæja, best að einbeita sér að því hvort stelpan sem ætlar ekki að gera dodo fyrr en hún er gift fer með ítalskættaða slepjugaurnum í honnímúnsvítuna.

Engin ummæli: