12.7.07

Jákvæði Hugarfarssöngurinn

Síðan smyglmálið mikla komst upp er ég búin að hafa tilhneigingu til kvíðakasta. Ég hef svo takmarkaðar taugar í glæpamennskuna að ég hreinlega höndla ekki ef eitthvað er ekki nákvæmlega eins og ég er búin að ákveða. Þá hef ég áhyggjur af að allt annað í heiminum og lífinu fari huxanlega í vaskinn, í kjölfarið. Er samt öll að reyna að jafna mig, með aðstoð HAM og jákvæða hugarfarsins. Hér eru til dæmis nokkur jákvæð hugarför um nánustu framtíð:

Það á að vera geðveikt gott veður hér á suðvestur horninu um helgina. Sem er alvarlega frábært þar sem ég sé fram á að þetta verði ein af örfáum helgum í sumar sem fjölskyldan þarf ekki að vera einhversstaðar úti á landi í brúðkaupi. Að hluta til eða í allri sinni dýrð. Eitt er um þarnæstu helgi. Í Bárðardal. Í augnablikinu lítur út fyrir að við byrjum bara á að skreppa austur með Freigátuna og geymum hana þar frá laugardegi til sunnudags. (Svo foreldrin geti nú hrunið alminilega íða, í fyrsta sinn sem þau fara saman í brúðkaup, utan síns eigins.)

Svo eru aðrar stórfréttir á næstu grösum, sem ég er svo heppin að vera alltaf að gleyma. Síðasta Harry Potter bókin er alveg að koma! Og hvílík heppni að hún skuli einmitt koma á árinu sem ég er búin að einsetja mér að lesa enga bók sem ég hef lesið áður. (Þýðir reyndar að ég sleppi hinni venjubundnu upphitun, en hvað um það.) Ég er ekki búin að fyrirframpanta hana á netinu, þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir frá honum Amazoni. Ég gerði það síðast og þegar skræðan var búin að hía á mig í viku úr öllum búðargluggum, gafst ég upp á að bíða eftir að hin kæmi í póstinum, keypti hana, og seldi hina, lox þegar hún drattaðist í hús, þá þegar orðin öldruð. Svo nú verður bara beðið eftir að hún komi í bókabúðir. Og ég ætla heldur ekki á miðnæturopnun. Bara á venjulegan búðartíma, þegar ég hef tíma. En gaman verður þá. Ójá.

Og nú er ég að vinna síðasta sprettinn á Bandalaginu mínu, á bara eftir að vera hér í rúman mánuð. Og ætla að klára heilan haug af allskyns, svo það er vissara að halda á spöðunum og hætta þessari endalausu jákvæðni.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hey! Má ég fá Harry Potter lánaða þegar þið eruð búin að lesana (og jafnvel fara með hana úr landi í smátíma)?

Ásta sagði...

Ég pantaði mína í janúar. En liggur svosem ekki lífið á að lesa hana. Nema ef vera skyldi til að ná að vera á undan öllum skemmileggjurunum sem eiga eftir að uppljóstra plottinum út um allt netið daginn eftir að hún kemur út. Svo þarf ég líka að sjá mynd nr. 5 fyrst (er búin að gleyma bókinni) og lesa nr. 6 aftur (kláraði hana aldrei).

Unknown sagði...

Það er sko alveg merkilegt hvað ég er slök yfir Harry Potter núna. Síðast keyrði ég með syni mína (þá 7 og 9 ára) í miðnæturopnun Máls og Menningar. Og var samt búin að panta bókina hjá Amazoni. En núna er ég alveg slök þó ég þurfi að bíða fram yfir helgi með að fá dýrðina - vonandi verður eitthvað eftir samt...