10.8.07

Síðasta helgin!

Nú er ég komin í síðasta helgarfríið. Ég fæ aldrei aftur helgarfrí hjá Bandalaginu!
(Aðallega vegna þess að ég á bara eftir að vinna fram í miðja næstu viku, þá tekur við húsmóðurhlutverk í fullu starfi þangað til skóli byrjar.) Stuð.

Er annars mikið að velta fyrir mér tölvumálum heimilisins. Til er:
- Öldruð heimilistölva Rannsóknarskips, sem er löngu farin að þurfa alvarlega tiltekt í sér, huxanlega straujun og flatskjá svo hún hætti að vera svona mikill plásshákur. Hún er heldur ekki að fíla samskiptin við loftnetkortið sem við keyptum handa henni, svo líklega þyrfti að koma henni í þráðsamband við alnetið, sem er ekki andskotalaust, eins og heimilið snýr. Til þess þyrfti eiginlega að láta Smábát skipta um herbergi við skrifstofuna.
- Mín ektafartölva, sem er farin að hita sig eins og hún sé með gat á vatnskassanum og senda villuskilaboð hægri og vinstri um allt milli himins og jarðar og þarf alvarlega að komast í heilmikla viðgerð. Sérstaklega eftir að Freigátan plokkaði o-ið og u-ið af lyklaborðinu.
- Litli Makki sem er í fangelsi og ég fer alveg að efast um að ég sjái framar. Og ég veit ekki einu sinni hvar í fangelsismálayfirvöldum ég ætti að byrja að spyrjast fyrir um hann. (Og ekki bætir úr skák að Míka-diskurinn er í honum, sem og eiginlega allar sumarleyfismyndirnar frá Frakklandi.)

Og ég veit eiginlega ekki á hvaða enda ég á að byrja á því að koma einhverju skikki á þetta tölvuástand á heimilinu. Liggur við að maður ætti að bjóða dæmið út, bara.

Best að fara að kenna Freigátunni að borða alla brauðsneiðina, ekki bara smjörið ofan af.

4 ummæli:

Berglind Rós sagði...

Þetta er ekki nokkur spurning kona, það hlýtur að vera algjört forgangsverkefni að frelsa Míka!

Elísabet Katrín sagði...

Frelsun Míka...gæti orðið eins baráttumál og free Willý hérna í denn :) Styð þig í þessu máli, geri kröfuspjöld og kem suður í mótmæli á miðvikudaginn :) Ps. fæ ég ekki gistingu?:)

Árni Friðriksson sagði...

Jú, að sjálfsögðu. Miðvikudaginn, segirðu?
Ljómandi.

Nafnlaus sagði...

Hringdu nú í Makkafangelsið(lesist Tollstjóra) og spurðu um Makka litla, annars endar hann bara í óskilamunum og einhver séð húsmóðir úr vesturbæ kaupir hann á slikk fyrir jólin....Knús ljúfan mín, mun sakna þín á skrifstofunni en sé þig vonandi sem oftast annars staðar;-)Hvernig líður litla kafbátnum?