18.12.07

Merkilegt

Alltaf ætla ég jafnmikið að halda desember hátíðlegan, baka, borða, fara á minnst 2 jólahlaðborð og 3 tónleika, föndra, skreyta, hoppa og hlæja. Og ekki brext það frekar en fyrri daginn að allt í einu eru örfáir dagar til jóla og í desember hefur fátt eitt af þessu gerst.

Jólaþrif hafa að vísu verið framin, flestar jólagjafir eru komnar í hús og jafnvel búið að vöðla sottlu af þeim inní pappír. (Bæðevei, það þýðir ekkert að fara í Kringluna. Ég keypti restina af henni í morgun.) En húsið er óskreytt og huxanlega verður bara eitthvað lítið gert af því, fer eftir því hverju Rannsóknarskip og Smábátur nenna. Enda verður hér ekki nokkur hræða frá og með föstudegi og fram yfir áramót til að horfa á skrautið. Það er sem sagt komið fram yfir aðventuhuxanaháttinn, og komið að einhverju "æi, það borgar sig ekki, þetta er nú hvort sem er að verða búið...". (Skrítið að maður er alltaf farinn að huxa svoleiðis um viku áður en jólin byrja.)

Ég stóð mig að því að huxa: Jæja, ég Hlýt að geta aðventað fyrir næstu jól. Þá ætla ég nefnilega að vera í fæðingarorlofi. En svo rifjaðist upp fyrir mér hvernig er að vera heima með 10 mánaða orm... Ætli aðventun nái ekki bara sögulegu lágmarki á ári komanda.

Dagurinn aflagaðist slatta. Smábáturinn hinn veðurteppti átti að koma með flugi í morgun en komst síðan ekki fyrr en seinnipartinn. Í morgun átti ég líka að fara í mæðraskoðun, en hún frestaðist fram á föstudag. Þá var ekkert eftir annað en að leggja undir sig Kringluna, og það var gert. Svikalaust. 

Fyrir utan gjafainnpakkningar er þá allt sem eftir er að fyrir jólin alveg einstaklega ójóló. 
Eins og:
- Að fara með föt í hreinsun
- Láta laga annað ljósið á bílnum
- Pakka niður fyrir alla

Mér finnst eiginlega meira eins og ég sé að fara í sumarfrí... 
Ef það væri nú einhvern tíma sæmilega bjart úti.

Engin ummæli: