17.12.07

Mmmmoooonnntttt!

Oft hefur nú monts verið þörf, en sjaldan sem nú.

Í morgun, þegar ég var búin að ganga frá Þýðingafræðiritgerðinni, sem ég þurfti ekki að skila fyrr en á morgun, gerði ég mér örsmátt fyrir og kláraði bara lokaverkefnið í Ritstjórninni og hræðilegu skrifunum líka. Sem ég hefði ekki þurft að skila fyrr en hinn daginn. Þegar þarna var komið sögu var ennþá svo eldsnemmt morguns að ég náði að fara upp á Bandalag í kaffi og kjaftæði og ljósritun á aukadrasli sem þurfti að skilast með verkefnum, og ég náði meiraðsegja líka bæði í bókhlöðuna og Lánasjóðinn áður en ég mætti í M-jóga og -sund.

Í jóganu og sundinu voru allir, góðu heilli, með jafnvægisæfingaþema í dag. Það var djufflinum erfiðara, en vafalaust því hollara.

Eftir M vatt ég mér upp í háskóla, skilaði verkefnunum og lauk smá erindi við Nemendaskrá. Ég er sem sagt búin í skólanum!

Ekki var látið staðar numið, heldur fór ég og sótti Rannsóknarskip og við náðum að færa einn bílfarm af jólagjöfum heim, áður en við sóttum Freigátuna. Að því loknu sóttum við annað eins. Það sem eftir er af jólagjöfum verður sópað upp á morgun, en þá ætlar Móðurskipið að taka Kringluna með hælkrók og þreföldu áhlaupi.

Rannsóknarskip lauk þrifum á heimilinu í gær, (fyrir utan skrifstofuna sem enn ber nokkurn námsmerki sem stendur uppá Móðurskipið að laga).

Svo það á næstum bara eftir að pakka inn jólagjöfum og jólaskreyta smá.
Svo mega jólin bara koma...

2 ummæli:

Unknown sagði...

Til hamingju með það! Síðustu dagana hefur örlað á sektarkennd hjá mér yfir því hvað ég hef oft og mikið skemmt mér yfir óviðjafnanlega fyndnum og vel skrifuðum dagsnótum þínum af krankleika og öðru fári, fannst eins og viss alvara hefði færst yfir sviðið hér á lokasprettinum og flissið í mér fór pínulítið að skammast sín. Nú er ég glöð fyrir þína hönd og get haldið áfram að flissa.
Jólajóla!
Hulda

Sigga Lára sagði...

Iss, flissaðu bara. Til þess erðetta. ;-)