5.1.08

Heima

Þá erum við komin heim til okkar, eftir vel heppnaða útlegð. Enda síðasti sjens að leggjast inn á aldraða foreldra vora, huxa að við næstum fjölgun stækki fjölskyldan meira en svo að það verði uppá okkur bjóðandi, í bili.

Allavega, búið að brjótast inn með allt draslið og setja í fyrstu þvottavélina, Freigátan búin að heilsa uppá dótið sitt og feðginin sest niður og farin að syngja jóla- og áramótasöngva úr vísnabókinni. Sem á vel við, það er allavega ennþá verið að sprengja flugelda á milljón, hér í höfuðstaðnum.

Freigátan var annars alveg einstaklega þæg á leiðinni suður. Hún söng og svaf eins og engill alla leiðina. Enda finnst Móðurskipinu aldrei nein langkeyrsla hafa gengið svona vel, síðan hún fæddist. Ekki seinna vænna áður en næsti ófriðarseggur kemur í heiminn.

Já, og talandi um það, það eru víst komnar 35 vikur á teljarann. (Sem þýðir að það er einum degi betur samkvæmt mælingum. Ég nennti bara aldrei að leiðrétta teljarann.) Það er allavega víst ekki til setu boðið með undirbúning. Ég held við séum meira að segja tæknilega fallin á tíma með helv... fæðingarorlofsumsóknina, ekkert farin að athuga með leigu á vöggu og bílstól, og ég er ekkert farin að grafa í geymslunni eftir minnstu fötunum. (Treysti bara á að ég hafi verið jafnskipulögð og ég ætlaði að vera þegar ég var að ganga frá þeim... þetta ætti allavega að vera frekar ofarlega.) Já, svo þurfti eitthvað að skrúfa í skiptiborðið, ef ég man rétt, og eitthvað þarf að athuga uppstillinguna á baðherberginu áður en Ofurlitla Duggan siglir inn. Og svo þarf alveg örugglega að gera ótalmargt annað, sem ég man ekki í svipinn.

Og ekki er nú mikill tími til umþóttunar og dingls, ég held ég sé að byrja í skólanum á þriðjudaginn. Fékk nýtt metnaðarkast fyrir jólin, og langar til að reyna að taka næstum fullt nám eftir áramótin, eða þ.e.a.s., reyna að klára það sem ég þarf að ljúga í fæðingarorlofssjóð að ég þurfi að klára. (Samkvæmt kerfi þeirrar stofnunar þarf ég nefnilega að vera skráð í fullt nám þangað til ég eignast barnið. Þó ég sé ólíkleg til að klára það. Það á bara að líta út eins og það komi mér ógurlega á óvart að ég eignist barn í febrúar... vegir fæðingarorlofssjóðs eru órannsakanlegir.) En, mig langar til að reyna að klára bara þessar 12 og hálfa einingu sem ég er skráð í, enda er þetta mest í fjarnámi. En þetta eru nú fleiri einingar en ég þarf, og rannsóknarverkefnið sem ég ætla að gera í sumar verður líka auka. En, well, hvað hefur maður svosem betra að gera...?

En gott verður nú að komast í Meðgöngujóga og -sund. Hef reyndar bætt skemmtilega litlu á mig yfir jólin, skv. vigtum, þrátt fyrir óhóflegt og stanslítið ofát um allt land, og er ekki enn orðin hreyfihömluð að ráði. Samt kominn tími á smá hreyfingu.

Engin ummæli: