Í gærkvöldi:
Það ætlar eitthvað að teygjast úr þessum vaxtarkipp hjá hraðbátnum. Undanfarna 2 sólarhringa hefur ekki verið sérlega mikið um svefn eða annan munað, svo sem eins og máltíðir, sjálfsþrif eða annað. Var á náttfötunum í allan dag, meira og minna með ungann á spena. Í augnablikinu eru reyndar allir aðrir á heimilinu sofandi en ég er hætt að nenna að reyna að sofa í svefnpásunum hans. Þær eru of stuttar. Enda er ég að lesa Mýrina og hún er að verða búin svo þetta er eiginlega of spennandi. Ef það þarf síðan að vera næturvakt, aftur, þá fær Rannsóknarskip að taka hana eitthvað. Annars er erfitt að ætla eitthvað að brúka hann að ráði við þessar aðstæður, þar sem litli vill helst alltaf drekka ef hann er vakandi.
En þetta hlýtur nú að fara að klárast. Ég er búin að léttast um 2 kíló á jafnmörgum dögum, og sá litli örugglega búinn að þyngjast um annað eins, og nú verður þessu bara að fara að linna áður en ég verð GEÐVEIK!
Í dag:
Hraðbáturinn loksins farinn að sofa eitthvað og internetið aftur farið að vilja tala við mig. Þá er nú allt á uppleið. En þessir svefnlausu sólarhringar voru ekkert grín. Þá er bara að reyna að sofa þetta úr sér eitthvað. Hraðbáturinn er allavega að hamast við það. Við Rannsóknarskip erum farin að hlakka mikið til að fá kannski jafnvel að sofa megnið af næstu nótt. Lúxuslíf.
23.2.08
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Æjá, þessi kríli! Maður man allt of vel eftir öllum andvökunóttunum, stundum fram undir hádegi!
Hugsa til ykkar, þetta gengur fljótt yfir!
Skrifa ummæli