12.3.08

Allt að gerast

Það gerðist ótrúlega margt í dag. Til dæmis komst Rannsóknarskip loxins í vinnuna. Hraðbáturinn var rólegur næstum fram að hádegi og Móðurskipið duglegaðist við að skrifa bæði slatta í leikritinu og byrja pínulítið að lesa fyrir ritgerðina. En friðurinn endaði reyndar laust fyrir hádegi og kom aldrei aftur.

En í dag hafðist líka að senda feðgana Rannsóknarskip og Smábát í klippingar, og langar ógurlega að reyna að koma Freigátu í svoleiðis líka, fyrir norðurferð. Er ekki einhver krílaklippistofa einhvers staðar?

Og Smábátur tók til í herberginu sínu og svo stefna þeir nýklipptu í leikhús í kvöld, að sjá Bugsy Mallone í leikstjórn Siggu Birnu í Hagaskóla.

Brjálað að gera.

Og í dag varð uppvíst hverjir fara til Lettlands á leiklistarhátíð í ágúst, það verða Bingóararnir frá Hugleik og Leikfélagi Kópavox. Ég hef góða reynslu af partýum með því gengi svo þetta verður vafalaust hin besta skemmtan. En ég hef sumsé huxað mér að fara á þessa hátíð, bara á eigin vegum og uppá djókið. Hefði vissulega verið gaman að montast á henni sem höfundur Listarinnar að lifa, en, jæjajæja. Sennilega er ég búin að fá allt mont út úr þeirri sýningu sem ég get. (Og ég öfunda reyndar Hugleik Daxon meira. Einhvern tíma langar mig að verða svo hroðalega kúl að geta montast sem höfundur í Wiesbaden. Hef fengið að montast þar sem höfundarnemi og það var alveg slatta kúl, útaffyrirsig.)
Verst að allir hóparnir sem sóttu um að fara til Lettlands eru svo troðfullir af skemmtilegu fólki að ég hefði helst viljað hafa þá alla með...

Annars erum við Rannsóknarskip greinilega mjög alvarlegir leiklistarsjúklingar. Þetta sést best á því að nú erum við bæði búin að gefa sjálfum okkur og hvoru öðru leyfi til að taka húsmæðraorlof í svona viku í sumar, og hvað ætlum við að nota þau? Ekki til að taka langþráða afslöppun. Heldur í mjög strangt leiklistarprógramm sem nær frá morgni til kvölds alla fjarvistina. Hann á skólanum í Dalnum Svarfaðar og ég á leiklistarhátíð í Landi Lettsins. Hvurutveggja býður upp á mikið aksjón og lítinn svefn. En heim kemur maður ævinlega endurnærður í sálinni, þó líkaminn sé kannske ekki upp á alla fiskana.

Nú eru feðgarnir farnir og ég er orðin ein með litlu ungana sem báðir eru hálfsofnaðir. Ef ekki snúa báðir við í þeirri þróun lendi ég ekki í vondum málum... Ef báðir sofna eins og englar get ég kannski brotið saman þvottinn!

Engin ummæli: