19.5.08

Tiltektir

Eins gott að ég endaði síðast á góðri og langri sögu. En heimilið er allt á öðrum endanum. Smábátur hefur eignast mubblu sem tók um 24 klukkustundir að smíða og verður seld með íbúðinni þegar við förum héðan. Ég held allavega að Rannsóknarskip þverneiti að skrúfa dæmið í sundur aftur, þó það verði ekki fyrr en eftir mörrrrg ár.

Bezt að byrja á byrjuninni. Takk fyrir skemmtunina á föstudaxkvöld, allir sem komu nálægt mér og skemmtu mér þá. Auðvitað er það síðan þannig að þegar maður fer svona örsjaldan út úr húsi þá hefur maður ekki tíma til að tala við neinn eins mikið og mann langar. En það stendur nú allt til bóta, svona einhverntíma uppúr fertugu eða fimmtugu.

Semsagt, heimilið er enn eins og varpað hafi verið á það kjarnorkusprengju, aðallega vegna þess að ég fékk smámunakast og er að endurskipuleggja staðsetningar á öllum bókum heimilisins. En það er alveg slatti. Og þá finnur maður nú ýmislegt. Inni í gamalli minnisbók fann ég eftirfarandi:
- Alla leikdómana sem skrifaðir voru um sýninguna Fáfnismenn hjá Hugleik 1995.
- Félagatal Hugleiks veturinn 1994-1995.
- Skilaboð frá Hildi Völu sem skrifuð eru á bréfsnepil og hefst á orðunum: Þið með ykkar ógeðslegu persónutöfra. Ég vona að þið hafið skemmt ykkur vel helv... t.... ykkar...
- Þagnareiður sem íbúar ákveðinnar íbúðar á nefndu hóteli í Portúgalsríki í tiltekinni viku árið 1993 hafa allir undirritað og vonandi allir haldið!!! Viðurlög við rofi eru að bjóða öllum öðrum íbúum sömu íbúðar í ferð til Portúgal í mánuð.

Það getur nú verið alveg stórgaman að taka til.

En það er orðið nokkurn veginn fært um alla íbúð. En í dag er tiltektardagur úti og í sameigninni, svo ég er enn á smábarnavaktinni. (Sem er það sem ég var aðallega að gera um helgina á meðan smíðar stóðu yfir.) Og nú sýnist mér Hraðbáturinn vera að rumska, svo þar með er þetta blogghlé yfirstaðið.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

jahá..... ég get ekki svarið þennan miða af mér... en af hvaða tilefni hann var skrifaður get ég ekki munað..
Ég er að hugsa um að brjóta þagnareiðinn :)
HVÞ

Nafnlaus sagði...

Takk sjálf fyrir skemmtunina! Vonandi náum við að spjalla betur saman við annað tækifæri!

Berglind Rós sagði...

Ég var nú búin að steingleyma þessum þagnareið, spurning um að fara að skipuleggja Portúgalsferð ;-) Að vísu held ég að ég sé líka búin að steingleyma því sem átti að þegja yfir... Nema náttúrulega manninum í hinni íbúðinni, það er nú ekki hægt að gleyma því.

Sigga Lára sagði...

Já, ég segi það sama. Ég get ógurlega lítið munað úr þessari ferð sem ég átti að þegja yfir. Ja, nema þá helst það sem kom fyrir fólk sem bjó í öðrum íbúðum, en þagnareiðurinn náði nú sennilega ekkert yfir það þegar Ástþór villtist eða Unnsteinn fékk áfengiseitrun...