6.5.08

Tujúllað

Það bara hrynja inn sjaldséðir hrafnar. Hæ, Hildur Vala. Alveg skal ég veðja að þú ert með Barnalandssíðu eða Moggablogg eða eitthvað álíka. Ef þú vilt ekki setja slóðina í komment, vil ég fá hana hingað: siggla04@gmail.com.

Greinilega mikið verk að vera í varastjórn Bandalaxins. Hef ekki mátt vera að neinu síðan ég lenti þangað. Hef bara einhverjar mínútur núna þar sem ég er að bíða eftir þýðingarfælum. (Ætti auðvitað að vera að taka til, en... júnó.)

Freigátan er að fara til háls- nef og eyrnafræðings á morgun, sem er gott þar sem hún var lasin í dag og hrýtur núna hærra en samnefnd amma sín. Og er þá mikið sagt. En ég var sem sagt heima með smábörnin tvö í dag og líður eins og ég hafi lifað af dag í skotbardögum Bagdadborgar.

Þannig líður mér líka venjulega þegar ég kem heim úr jóganu með Hraðbátinn í vagninum. Er búin að búa í Reykjavíkurborg frá 1994 og sjaldnast bílandi. Og það virðist ævinlega hafa verið stefna borgaryfirvalda að gera fótgangandi vegfarendum ófært að ferðast um á sínum tveimur jafnfljótum eða einhverju hjólkyns. Og að ætla að ferðast um með barnavagn er óðs manns æði, alveg stórhættulegt. Gangstéttastubbarnir um bæinn enda margir allt í einu og út í loftið auk þess sem meirihluti borgarbúa virðist halda að þeir séu bílastæði og gangbrautir eru greinilega ekki í tísku. Ferðin í og úr jóga er þess vegna oft mesta glapræði. Ég skora á alla sem vantar spennu í líf sitt að prófa að skreppa með barnavagn í labbitúr um Borgartúnið. Og reyna að komast framhjá framkvæmdasvæðunum við helv... tónlistarhúsið og Höfðareitinn.

Ég er farin að hlakka mikið til að eyða sumrinu í sveitinni þar sem gangstéttir teygja sig jafnan, alveg galtómar, svo langt sem augað eygir. (Og sumar þeirra lagði ég meiraðsegja sjálf.)

Var að lengja sparibuxur Smábátsins, en sá hefur heldur betur síkkað að undanförnu. Hann var líka í píanóprófi og stóð sig svo vel að hann fékk að velja ruslfæði í kvöldmat. Fjölskyldan er því mjög vel haldin og úttroðin af gúmmulaði frá Pizza Hut.

Best að taka vioð Hraðbætinu og hleypa þreytta Rannsóknarskipinu í bað.

Engin ummæli: