29.6.08

Út rekin

Undanfarið hefði ég bæði getað dáið og drepið fyrir að fá að vera alfriðuð í þó ekki væri nema klukkutíma, eða svo. Samt fór mér nú svo að þegar Rannsóknarskip byrjaði að reyna að reka mig í vinnuna uppúr fótaferð í morgun að ég ætlaði aldrei að drattast í kjallarann. Fann mér þess í stað ýmislegt til dundurs, er búin að vaska upp í leka vaskinum í húsinu okkar, fara í bleyjumó og ýmislegt smálegt. En er lox komin niður í vinnufriðinn og er að anda að mér þögninni.

Í gær ákvað stórfjölskyldan nefnilega að í dag skyldi haldinn fimmtudagur. Það er nefnilega bara spáð einhverjum rigningarhroða hér, en von er á einhverri smáglætu á fimmtudaginn. Og þar sem ég hef huxað mér að vera byrjuð að vinna fyrir hádegi á fimmtudag, þá er ég mætt í kjallarann með uppbrettar ermar og þarf nú að lesa einhverjar greinar og hringja í mikinn fjölda manns... en þykir reyndar ekkert sérlega líklegt til árangurs eður bóngæsku að gera það fyrir hádegi á sunnudegi... svo ég læt mér nægja að undirbúa erindin og grafa upp símanúmer í dag.

Datt annars í þanka um enn eitt framtíðarskipulag í morgungjöfinni sem hafði í för með sér búsetu á Hallormsstað... Framtíðarskipulögin mín eru annars orðin svo mörg að ég þarf að fara að skrifa þau niður. Svo á Rannsóknarskip að velja. Og öll eru þau komin undir ýmsu í þróun mála á næstu árum. Engar skipulaxbreytingar eru fyrirhugaðar á allra næstunni.

Bezt að hummast til að fara að vinna.

3 ummæli:

Svandís sagði...

Mig langar líka ótrúlega mikið til að búa á Hallormsstað. Alveg sjúk í það.

Nafnlaus sagði...

En ... en er nokkuð strætó á Hallormsstað? Þessi athugasemd er kannski pínulítið óskiljanleg öðrum en þér. Sem er bara ágætt. Finnst mér. Hmm?

BerglindSteins

Sigga Lára sagði...

Já, þar er sennilega heldur ekki ein einasta gangstétt, ef út í það er farið... En skógarstígar milli húsa.

Ég verð bara að vera hætt að nota barnavagninn þegar ég fer þangað. ;-)