30.7.08

Skoðanadagur

Ekki ætlar mér nú að verða baun í bala úr verki í vinnunni í dag. Fórum með Hraðbát í 6 mánaða skoðun í morgun. Hann er orðinn 7,8 kíló, en hefur ekki lengst síðan síðast og er enn 66 cm. Hefur hins vegar stækkað eitthvað í höfuðmáli. Svo þessum 540 grömmum síðan síðast hefur hann fyrst og fremst bætt á hausinn á sér. Enda orðinn algjör heili.

Svo þurfti bíllinn líka í skoðun. Og fékk svoleiðis. Og svo þurfti að versla. Og nú er ég rétt að stelast á internetið áður en ég fer í sund með Freigátuna. Kannski sigla svo Rannsóknarskip og Hraðbátur í kjölfarið, ef þeir nenna.

Það er annars að frétta af fjölskyldumeðlimnum sem við höfum varla séð í sumar að hann hefur dvalið hjá móðurforeldrum sínum undanfarið, mun vera á leið norðurum til föður síns og fer með þeirri fjölskyldu til Danmerkur á föstudag og kemur ekki aftur fyrr en 15. ágúst. Skilst mér. Við hittum hann því ekki fyrr en um það leyti sem hann á að byrja í skólanum sínum. Hann ku hlakka til að fara í 7. bekk, en það þýðir að hann er í efsta bekknum í Vesturbæjarskóla, en segist nú ekki hlakka til að byrja í skólanum, per se. En mig grunar nú að hann verði hálffeginn. Mér heyrist honum hafa þótt fullrólegt í sumar og hann hefur jafnvel spurt hvenær hann megi fara í unglingavinnuna. Smábátur er sumsé farinn að huxa sér á vinnumarkað.

Meiri fréttir. Í gær kom leikhópurinn Lotta hingað með sýninguna Galdrakarlinn í Oz. Freigátan uppástendur hins vegar að þessi sýning hafi heitið "Nýja Soffía Mús." Allar leiksýningar heita sumsé eftir fyrstu leiksýningunni sem hún sá. Í sýningunni var líka hundur sem var eins og hundurinn í næsta húsi. Hann heitir "Hin Mía."

Nú er sólin komin og þá er best að drífa sig í sund.

Engin ummæli: