27.8.08

Það er þegar orðið ljóst

að ég er að gera allt annað en það sem ég var búin að einsetja mér. Ég var alveg harðákveðin í því að nú á haustönn ætlaði ég EKKERT að gera annað en að vera heima með Hraðbát og skrifa leikrit þegar tími gæfist. En, húllahúpp, Glettingur er talsvert langt frá að vera tilbúin, ég datt eitthvað inn í að þýða aftur ("hættið" í vor breyttist í langt sumarfrí) og er svo að huxa um að taka málstofu og ritgerð í náminu, til að hala mig upp í full námslán. Og er þegar að verða gráhærð (ari) af stressi og það er ekki einu sinni kominn september.
Það er sumsé peningagræðgin sem er að fara með mig vestur úr því.

Og það gengur ekki.

Ætla að hætta þýðingum frá og með laugardegi. Og ætla að taka málstofu í skólanum, en ekki að taka ritgerðina á móti neitt sérstaklega alvarlega. Gletting klára ég þegar Freigátan verður byrjuð á leikskóla.

Aukatíma og útivistarleyfi fá svo hálfskrifuðu leikritin og leikfélagið.
En það liggur nú við að ég sé líka að klúðra skipulaginu á því.

Til dæmis:
Mig langar á námskeið í tónlistarspuna í leikfélaginu.
En mér finnst ég ætti frekar að leikstýra einþáttungi.
En langar jafnvel enn frekar að leika bara, ef einhver vill mig.

Og leikritin.
Er búin að sækja um styrk fyrir eitt.
En byrjaði að skrifa annað um daginn sem séns er að ég ætti að klára í vetur.
Langar samt mest að vinna í því þriðja sem er reyndar búið að vera í smíðum, af og á, síðan 2002.
En hef á tilfinningunni að ég ætti að vera að skrifa það fjórða, sem er nýleg hugmynd.

Eru ekki til lyf við athyglisbresti?

3 ummæli:

Elísabet Katrín sagði...

Jú, Strattera heitir eitt lyf við athyglisbresti...en mér finnst nú bara betra að fólk fái að hafa sinn athyglisbrest í friði...ég hef þá skoðun að allir hafi athyglisbrest, bara misjafnlega mikið ;)

Sigga Lára sagði...

Hmmm. Spurning um að fá að taka kúr annað slagið. Svona rétt til að koma reiðu á óreiðuna...

Gummi Erlings sagði...

Amfetamín virkar víst líka. Ekki að ég hafi prófað það.