28.8.08

Undur!

Mig minnir að ég hafi lesið einhvers staðar að börn verði ekki almennilega til vandræða fyrr en þau verða unglingar. Nú er Smábátur orðinn heldur en ekki dimmraddaður, kominn fram úr mér í skóstærð og að ná mér í hæð. Og er á aldri sem kemur heim og saman við aldurinn sem fólk er venjulega á þegar hinn StórHættulegi unglingsaldur á að fara að bresta á.

Núna að loknu sumarfríi hefur vissulega borið á ýmsum stórmerkjum. En öll eru þau jákvæð og bara nokkuð stór skref í átt til sjálfstæðis í vinnubrögðum og ábyrgð á eigin strangheilbrigða lífstíl. Í kvöld, þegar umræddur kom úr sturtunni sem hann hafði alfarið skipulagt sjálfur og hannað tandurhreinan alklæðnað í framhaldi, komu síðan tvær setningar sem gerðu það að verkum að ég þurfti að athuga rækilega hvort mig væri að dreyma.

Setning 1: Ég þarf að fara í klippingu. !!!!
Síðan ég kynntist Smábáti hafa ferðir til hárskerðinga kostað japl, jaml, fuður, auk marglaga múta og hótana.

Setning 2: Hvar eru naglaklippurnar? Í framhaldinu settist Smábátur niður og skerti allan sinn naglakost, bæði á puttum og tásum. Hingað til hefur undantekningalaust þurft að benda honum á að neglurnar á honum myndu hugsanlega flokkast undir stórhættuleg vopnabúr, áður en hann tekur eftir að þær þarfnist e.t.v. snyrtingar.

Semsagt. Unglingafaraldurinn byrjar vel.

Önnur undur: Meðan litlu horgemlingarnir sváfu báðir í einu í dag fór ég að vinna á milljón í leikriti.
Það er ekki það sem ég sótti um styrk fyrir.
Það er heldur ekki það sem séns er að verði sett upp, jafnvel næsta sumar.
Né heldur það sem er sennilega rosalega góð samtímahugmynd akkúrat núna.

Það er sjálfsprottni arfinn sem hefur verið í einhverri tilviljanakenndri þróun síðustu 6 ár og neitar að sofna í möppu eins og fleiri tonn annarra hugmynda.
Kannski þetta verði að einhverju.

Engin ummæli: