5.9.08

Fyrir daglátum

Í nótt dreymdi mig að ég kæmist í gallabuxur. Svo sem ekki í frásögur færandi. Nema þetta voru alveg ákveðnar buxur sem ekki höfðu passað síðan einhvern tíma fyrir seinni óléttu. Ekkert meira með það.

Í morgun þegar ég var í svefnþokunni að leita að fötunum mínum rifjaðist upp fyrir mér að Hraðbátur lét það víst verða sitt síðasta verk í gærkveldi að gubba í allt sem ég var í. Ákvað ég þá að gá hvort buxudruslurnar úr draumnum pössuðu kannski. En var mjög efins.

En, viti menn. Þær passa! Sem er nokkuð vel af sér vikið þar sem þetta er hreint ekki ein af þessu eftirgefanlegu eða fyrirgefandi flíkum. Hreyfiátakið er sem sagt farið að skila árangri. (Enda eins gott. Eyddi öllum peningunum mínum í að borga hreyfitengt í gærkvöldi.)Er reyndar ekki farin að sjá kílóafækkun en eitthvað er ég greinilega farin að breyta um lögun.

Frekar skemmtilegt. Held ég verði alveg jólafær eftir fimm kíló. Ef mér text að losna við 10 verð ég Ofurpæja.

Annars er runninn upp fyrsti skóladagurinn minn. Þegar Rannsóknarskip streymir heim til sín seinnipartinn ætla ég að þrusa út í Háskóla (sæki ókeypis strætókortið mitt) og sit fyrsta tímann í málstofu sem heitir Dauði harmleixins (og ég veit ekkert um hvað snýst. Passaði bara við stundatöflu Rannsóknaskips.) 

Er að reyna að taka soldið til. Skipta á rúmum og svona. Stefni á einhver þrif um helgina og heilmikla ritstjórnarvinna. Smábátur ætlar að passa ömmu sína og ég þarf að vera dugleg að senda Rannsóknarskip út af örkinni með þau litlu svo ég geti tekið skurk. Það er nefnilega ekki fallegt til afspurnar, en nú strandar blaðið aðallega á greinum og verkefnum sem ritstjórinn sjálfur þarf að haska sér í að klára. Það er nú skemmtilegra þegar maður getur setið og urrað yfir slóðaskap annarra. ;-)

Engin ummæli: