30.9.08

Grenj

Leikskólinn segir enn tvær til þrjár vikur. Ég brást við því með því að fara að grenja og senda honum tölvupóst. Athugum hvort það gerir eitthvað. Þessi töf núna er af einhverjum óútskýranlegum ástæðum. Það eru búið að fullmanna. Og byrjað að taka inn börn alveg hægri og vinstri. Hitt barnið sem á að byrja á deildinni hennar Gyðu í haust er byrjað. Svo ég skil ekki vandamálið.

Hins vegar finnst mér eiginlega enn fúlla ef það virkar að fara að grenja. Mér finnst ömurlegt að það þurfi til og að það skuli virka. Á ekki borgin/leikskólarnir/allir að vera að gera sitt besta til að leysa þetta árlega vandamál fyrir? 

Og. 

Þar sem þetta er árlegt vandamál sem snertir alltaf góðan slatta af borgarbúum, og borgin á greinilega nóga peninga og getur verið í "útrás" og fyrirtækjamatador með milljarða, hvers vegna er ekki búið að fleygja peningum í þetta vandamál og láta það hverfa? Læna upp afleysingafólki á haustin. Eftirlaunafóstrum og námsmönnum sem eru kannski til í að leysa af í einhverjar vikur? Gefa leikskólum fjárheimildir til að sumarafleysingafólk haldi áfram eitthvað fram á haustið ef þarf og þeir geta? Gera samninga við Leikskólakennaradeildina um að nemendur þar taki æfingakennslu á haustin? Svei mér ef maður ætti ekki að fara að koma sér í borgarstjórn og sækjast eftir leikskólamálum.

Og.
Akkurru er verið að senda manni bréf um að barnið sé "komið inn" á leikskóla, um hálfu ári áður en það má byrja? Hvernig væri að senda mönnum bara bréf þegar komin er dagsetning á það hvenær barnið má byrja? Það hefði til dæmis gert mikið fyrir mína geðheilsu ef Freigátan væri bara búin að vera á sínum gamla leikskóla, og væri kannski bara núna að frétta að hún mætti byrja á leikskólanum handan götunnar eftir tvær til þrjár vikur.

Núna er ég nefnilega að missa það.

Ég er ýmsum kostum búin og get margt. En heimavinnandi get ég helst ekki verið. Og eftir að vera heima með tvö börn í einn og hálfan mánuð er nóg til þess að nú held ég að ég þurfi að sækja um einhver viðtöl hjá geðhjúkrunarfræðingnum. Sem er önnur ástæða fyrir því að mér finnast uppeldisstéttirnar eiga að vera betur launaðar en allar aðrar. 
Þetta er nefnilega ekki fokkíng hægt! 

Mér þykja börnin mín skemmtileg. 
En. 
Að vera allan daginn að skeina, snýta, mata, klæða, skipta á, hugga, sinna og skamma... á milli þess sem maður treður í uppþvottavél, þvottavél, þurrkara, og reynir að grynnka á draslinu og aldrei sér högg á vatni... kemst ekki út úr húsi nema til komi meiriháttar skipulagning og þurfa þá að byrja á að troðast ofan í kjallara með miklu fleira en maður getur borið, í sinaskeiðabólgnu höndunum sínum...

Ég huxa að ég tali fyrir munn miklu fleiri en vilja viðurkenna það þegar ég segi að:
ÞAÐ ER ÖMURLEGT!
Og getur farið illa með geðheilsu geðprúðasta fólks.

Vegna þess að:
-Maður gerir illa það sem manni finnst leiðinlegt.
-Ef það eina sem maður þarf að gera er leiðinlegt, gerir maður allt illa.
-Ef maður gerir allt illa er maður ööömurlegur.
Og ekki bætir úr skák að vera síðan hálfgerður stofufangi heima hjá sér og þurfa allan daginn að horfa á draslið sem maður er ekki að taka til.

Ég vissi að það yrði erfitt fyrir mig að vera heima fram að áramótum. Og þess vegna var ég búin að gera ýmsar ráðstafanir til að reyna að halda geðheilsu fram í desember. Skrá mig í mömmujóga og gera fleira líkamsræktartengt. Skrá börnin á sundnámskeið. Skrá sjálfa mig í einn masterskúrs í háskólanum. Og svona. Allt í þessu skipulagi gerði hins vegar eingöngu ráð fyrir að Hraðbátur yrði með mér. Fátt af þessu reiknaði með því að ég yrði með hina tveggja ára Freigátu prílandi upp á haus á mér. En við þær aðstæður er hreinlega ekki hægt að lesa harmleiki.

Enda er ég komin á hraða niðurleið. Byrjaði ágætlega. Var dugleg að fara út og hreyfa mig á kvöldin. Og lesa og sinna Glettingnum eftir vinnu Rannsóknarskips og fram eftir kvöldi. Og segi það ekki, er ennþá ágæt. Fór í ræktina í gær og píndi Rannsóknarskip heim úr vinnunni svo ég kæmist í jóga í morgun. En er farin að finna hjá mér gríðarlega þörf fyrir að gera ekkert nema éta eftir að börnin eru sofnuð á kvöldin. Og helst ekkert nema nammi. (Læt ekki enn undan, en það er alveg að koma að því.) Og er farin að fara næstum eða alveg að grenja ef hlutirnir eru ekki nákvæmlega eins og ég var búin að ÁKVEÐA!

Enda var ég ekkert að ljúga í tölvupóstinum til leikskólans áðan þegar ég tjáði honum að ef málið leystist ekki farsællega á næstu dögum þurfi maðurinn minn að hætta í vinnunni.

Svo ef þetta blogg þagnar skyndilega verður Móðurskipið sennilega komið á geðdeildina af húsmóðurlegum geðbólgum. Ef ég væri uppi í Bandaríkjunum á fjórða til fimmta áratug síðustu aldar væri líklega löngu búið að senda mig í heilablaðsskurð.

Best að fá meiri útrás fyrir gremjuna og grenjuna og lesa Hippolítos.

PS. 
Opnaði Hippólítos og það fyrsta sem ég les er setning Fedru:

Ó, veslings ég!
mitt vit er á hvörfum; ó, ég er sturluð...

Svona ef einhver skilur ekki hvernig harmleikjalestur getur létt manni lundina.

PPS.
Er Hippólítos og Fedra höfðu bæði hrakist 
úr heimi lifenda; fyrir fláttskap Kíprisar og afbrýði, 
fengum vér þau boð úr herbúðum dagvistunar 
að vér mæðgur megum einungis tíu dægur enn 
svo margra njóta samverustunda, hvunndax.
En eftir þau aðskiljast, og hefja aðlögunartíma
á októberi hinum tíunda, á stofnun þartilgerðri.
Munum vér því hemja vort geð og bera eigi harm í brjósti
heldur nýta sem best stundir í samfélagi við yngismeyna
á vikum komanda, tveimur. Og vel við una.

Hvernig væri svo að skrifa harmleik?

9 ummæli:

Hugrún sagði...

Ja mikill er andskotinn!
Þú lætur mig vita ef ég get eitthvað hjálpað til (annars mæli ég bara með viðtali í DV) virkar það ekki alltaf. Kannski ekki nógu sterkt keis hjá þér.
Verst hvað við Árni erum samstíga í vinnu. Gæti átt lausan tíma á þriðjudag í næstu viku. Svo alltaf seinnipartinn (svona eftir 14-15) þú lætur mig vita. annars ættirðu að láta heyra í þér á þessum leikskóla. Greinilega verið að taka aðra krakka inn á undan.

Sigga Lára sagði...

Sendi leikskólanum grenjulegan póst í dag. Ég huxa að ég róist nú kannski eitthvað þegar endanleg dagsetning verður komin á dæmið... næstum hvenær sem hún verður.

Annars ætlar Árni bara að taka sér frí þegar ég þarf að komast í jóga þangað til Gyða kemst á leikskólann. Enda bara sanngjarnt að Borgin blæði einum kennara í þetta rugl.

Nafnlaus sagði...

"Æ fíl jor pein" svona á góðri íslENSKU

Vildi bara að ég væri komin til íslands. Þá gætirðu sent þau til mín. Munar ekkert um tvö börn í viðbót. Er hvort sem er löngu orðin snargeðveik ;)

Kv.
Svandís

Sigga Lára sagði...

Svandís mín.
Það verður nú nær, þegar þú flytur hingað, að við skiptumst á um að passa börnin þín og fara með þér í spö, eða eitthvað. :-)

Nafnlaus sagði...

Já ! Leikskólaharmleik, einn tveir og strax ! Hann gæti heitið Corpus Camera... eða Dauðinn heimavið.

Nafnlaus sagði...

Nú er bara eitt að gera. Nú þarf Árni að hringja í leikskólastýruna og segja henni dimmum rómi að hann sé að koma að ræða við hana. Svo fer hann í leikskólann og ræðir við leikskólastýruna. Kvennavinnustaðir vita nebblega að þegar heimilisfeður eru komnir í málið þá er það alvarlegt. Þangað til erum við bara grenjandi mömmur.

Nafnlaus sagði...

þetta gæti verið verra.. þú gætir verið bankastarfsmaður...
kveðja
Hildur

Nafnlaus sagði...

Þetta er ekki alltaf tekið út með sældinni! Vertu bara glöð yfir að þau sofa á nóttunni.... ég er ennþá að þakka fyrir að geta loksins sofið nánast heilu næturnar án þess að rumska!
Hugsa hlýtt til þín og vona að ástandið fari að batna!
Annars eru skifin þín óborganleg og lífga upp á tilveruna hjá okkur hinum sem nennum að lesa!
Knús á þig, Lilja Eygerður

Nafnlaus sagði...

Gvuð hvað ég skil þig! Áfram bara"

Bestu kv.
Rannveig