3.10.08

Nýtt stríð

Tróð Smábátnum í úlpu áður en hann fór í skólann. Píndi hann líka í almennilega skó, en undanfarið hefur hann bara viljað ganga í tuskuskóm. Sem er í góðu lagi, nema það sé snjór. Svo nú er sem sagt unglingastríðið byrjað. Úlpan var greinilega ekki að gera neina stormandi lukku. Ég þorði ekki einu sinni að stinga uppá húfu... sem hefði óneitanlega verið svolítið skemmtilegt.

Annars er að koma helgi og svona. Ýmis verkefni standa fyrir dyrum. Það er sprungið á barnavagninum svo eitt dekk þarf að fara á viðgerðaverkstæði. Bíllinn þarf ljóslega í skóskipti og tvö eldri börnin þurfa í klippingu. Smábátur og Rannsóknarskip ætla að heimsækja frænda þess fyrrnefnda á sjúkrahús, hvar sá er allur að skríða saman eftir bílslys um síðustu helgi. Á nú samt einhvern slatta í land með að verða sem nýr. Ég er búin að panta nokkra klukkutíma til að klára að koma restinni af Glettingnum í umbrotið. Svo var ég nú eitthvað búin að láta mig langa með alla fjölskylduna í Árbæjarlaugina og láta litlu sundgarpana sýna listir sínar. En Hraðbáturinn var nú eitthvað stíflaður í nebbanum í nótt svo ég veit ekki hvernig það fer. Enda kannski búið að ofskipuleggja helgina.

Í dag er merkisdagur. Hraðbátur er orðinn 8 mánaða gamall. Í tilefni þess reyndi ég að ná mynd af öllu nýju tönnunum, en drengurinn virðist ekki opna munninn án þess að harðloka augunum.

Nú er afmælisbarnið sofnað, Freigátan að komin í pleimó og Móðurskipið að hlusta á Óskastundina hennar Gerðar G. og ætti að fara að hunskast til að klára að lesa fyrir tímann í dag. Er, aldrei slíku vant, bara nokkuð vel lesin! Lógaði Evrípídesi, Racine og Strindbergi í vikunni og er nokkuð stolt af. Þá er bara kennslubókin sjálf eftir.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið eru þetta sæt börn!!
Það eru mín líka.
En mig langar í hest.

Ylfamist

Sigga Lára sagði...

Mig líka. Að borða.

Spunkhildur sagði...

Burtséð frá hrossaketi þá eru börnin þín einkar lagleg og gáfuleg til augnanna, öll þrjú. Til hamingju með þau öllsömul.

Elísabet Katrín sagði...

Þessi mynd af honum Friðriki minnir mig örlítið á hann Mikael Huga á svipuðum aldri ;)
Annars er unglingsgegljan misjöfn, ég næ Kristjáni ekki út úr húsi á morgnana án þess að hann sé í úlpu og með húfu og vettlinga!!! Svo fer hann einnig í gúmmístígvél ef þannig viðrar...alveg að eigin frumkvæði ;)
Nörd ársins ;)
Semdu bara við Sverrir um hrossakjöt, held hann þurfi að slátra hófsperru-merinni í haust!

Siggadis sagði...

Ohh - ekkert lítið sætur og allar þessar tennur! Til hamingju með afmælið hjá Snúllanum og eigðu sem bestasta helgi :-)

Nafnlaus sagði...

Mæli með Grafarvogslauginni en innlaugin þar er víðáttumikil, þar er alltaf gott veður og sjaldan eins mikið af ormum og foreldrum með hávaða og í Árbæjarlauginni.