29.9.08

Heilagur Mammon

Þetta er ekki einleikið. Í einhverju fyrra lífi hef ég eignast svo stóran hönk upp í bakið á honum Mammoni að ég veit ekki hvar þetta endar. En ég hef allt þetta líf verið einstaklega heppin í fjármálum. (Gæti svosem reynt að halda því fram að það væri vegna þess að ég hefði svo gott fjármálavit. En það væri haugalygi.)

Septembermánuður er búinn að vera nokkuð magur. Eftir sumar á hungulúsinni sem námsmenn fá í fæðingarorlof er enda ekki við öðru að búast. Í september hef ég því velt fyrir mér hverri krónu og ekki eytt nema annarri hverri. Eins og kreppuhjalarar segja að maður eigi að gera. Í gær fór ég svo aðeins í netbankann minn til að gá hvað ég væri nú í miklum mínus. Og átti óvænt alveg fúlgur fjár!

Þannig er að fyrir einhverjum vikum fékk ég bréf um að það væri verið að leggja niður verkalýðsfélagsdeildina mína. Eða eitthvað svoleiðis. Félaxmenn skyldu fá útborgaðan einhvern péning, í rétu hlutfallið við hvað þeir hafa verið að vinna undanfarin 2 ár. Þar sem ég var nú bara að vinna einhver 55 prósent fyrra árið af síðustu tveimur bjóst ég við einhverju fyndnu innleggi sem næði kannski fimmhundruðkalli, ef ég væri heppin. 

Og daginn eftir að ég finn auka hundraðþúsundkall inni á reikningnum mínum heyrist bara "svvvúpp" og einkavinavæðingin gengur til baka. Fínt bara.

Í tilefni fjárfundarins fór ég með börnin í bæinn í morgun og spreðaði á þau bókmenntum og DVD-i fyrir fimmþúsundkall. Sé enn eftir að hafa ekki keypt Iggúl-Piggúl-bókina. Geri það næst.

Ekki er allt búið enn. Á von á launum eftir mánaðamótin. Sem voru nú hálfgerð hugnurlús til að byrja með. En þau eru í DOLLURUM!!!!$$$$$

Svo er Sólbraut 10 til sölu. Á einhver 125 milljónir?

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

125 milljónir *líðuryfirsvandísi*

Það hlýtur að vera búið að gera einhverja stórkostlega hluti við þetta hús síðan einu sinni.

Kv. Svandís

Elísabet Katrín sagði...

Ég væri sko alveg til í að gista hjá ykkur á Sólbraut 10 ;)hehe...biddu bara Dabba digra um þessar millur, hann munar nú varla um það eftir bankabraskið ;)

Nafnlaus sagði...

Jeminn eini, það er búið að búa til SPA úr herberginu mínu!
Það hefði verið gaman að sjá innimyndir. Ég þekki varla húsið svona að utan.
Kveðja
Þórdís

Sigga Lára sagði...

Já, eitthvað hlýtur það að vera... en líklega er það ennþá jafnundarlegt í laginu. Mér leikur mest forvitni á að vita hvað þau nota "pallinn" og "holuna" í stofunni.