7.11.08

Eftirá

Hraðbáturinn er alveg að fara að ganga. Hann hífir sig upp á öllu og öllum og stendur oft uppréttur án þess að halda sér neitt mikið í, á sleipum sokkum á parkettinu eða flísunum eða hverju sem fyrir verður. Freigátan var líka farin að standa uppvið á hans aldri en hún hallaði sér upp að og ríghélt sér fram undir eins árs aldur. 

Þessi munur hefur sennilega með húsnæðismál fjölskyldunnar að gera. Þegar Freigátan var á svipuðum aldri, fyrir 2 árum síðan, bjuggum við enn á pöllunum á Tryggvagötunni. Þar var gólfið harðara og allt í stigum þannig að hún fékk eiginlega ekkert að hreyfa sig um og var látin halda sig á mottunni í stofunni. Hraðbátur hefur hins vegar alltaf verið frjáls ferða sinna um alla íbúð og það munar líklega því um jafnvægið.

Annars eru einmitt að verða 2 ár síðan við keyptum þessa ágætu íbúð. Sem okkur líkar svona líka ljómandi vel við. Og ég vona að við missum ekki í hópgjaldþroti komandi mánaða.

En samt.

Það væri svo sem ekki ónýtt að vera bara enn í leiguhúsnæði og láta útborgunina fitna enn meira á verðtryggðum reikningi og horfa á húsnæðisverð lækka um 46%
Ætli gamla íbúðin mín á Vitastígnum fari ekki aftur að fara niður í 8 milljónirnar sem ég keypti hana á árið 2004?

Stuð að vera vitur eftirá.

Annars er ég svo mikið kreppuskáld að ég fæ marga innblástra og fullt af andagiftum á hverjum degi í þessum hrynjanda öllum saman. Verst að ég má ekki neitt vera að því að skrifa. Glettingur fer síðustu metrana í lokafrágang til prentunar um helgina og svo fer að koma ritgerð og próf! (Já, ég þarf að taka svona skriflegt, fjögurra tíma próf. Hef ekki þurft þess í örugglega 10 ár og veit ekki hvort ég kann að skrifa lengur.)

Engin ummæli: