18.11.08

Engin leið að hætta

Ég er nottlega svoddan bjartsýnitrýn. En ég leyfði mér að vona að seðlabankastjóri væri að sjá að sér og segja af sér þegar ég heyrði að útvarpa ætti ræðunni hans beint í morgun. Öðru nær.

Hins vegar þurfum við greinilega ekkert að leita að sökudólgunum. Í ákafanum að ganga hver frá öðrum eru þeir greinilega að byrja að skjóta sig í fæturna og jafnvel höfuðin. Bræður munu berjast. Svo ganga þeir hver frá öðrum og við lýðurinn þurfum bara að urða hræin og taka við.

Áhugavert í ljósi fjölmiðlaumræðunnar á Nasa í gærkvöldi að þessari ómerkilegu (kosninga...) ræðu skuli þurfa að útvarpa beint. Í heilan fokkíng klukkutíma! Á meðan þessir stórmerkilegu og stækkandi borgarafundir fá í mesta lagi nokkrar setningar í slagorðastíl í nokkrum fréttatímum. Er reyndar útvarpað, en eftirá. Sama með mótmælin á Austurvelli. Það er ekki frétt að fleiriþúsund manns með hverri vikunni mótmæli nema einhverjir hendi eggjum.

Annars hef ég samúð með fjölmiðlamönnum. Sérstaklega þeim sem þurfa að reyna að spyrja stjórnmálamenn að einhverju og uppskera útúrsnúninga, fyrirlitningu og stundum hálfgerðan skæting. Þó ráðafólk sé búið að taka sig á um marga kílómetra frá því sem var fyrst eftir hrun þá missa menn óþægilega oft eitthvað út úr sér sem kemur upp um þá ímugust og fyrirlitningu sem þetta fólk virtist hafa á hinum almenna þjóðfélagsþegni. Þeim finnast fjölmiðlamenn aðgangsharðir. Ef marka má borgarafundinn í gær finnst almenningi fjölmiðlamenn alls ekki nógu aðgangsharðir. Ekki skrítið að þau passi sig á að sniðganga borgarafundina þar sem almenningur getur spurt óþægilegra spurninga.

Hvernig í veröldinni getur fólki sem er (búið?) að setja þjóðina á hausinn fundist það hafa efni á öllum þessum valdhroka? Fyrirlitningin á milli mín og ráðamanna er að verða nokkuð gagnkvæm.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kannski er ég fullbjartsýn en mér finnst votta fyrir meiri aðgangshörku fréttamanna núna og tengi það eindregið upplýstu og málefnalegu gagnrýninni sem var fram borin á Nasa á mánudagskvöld. Helgi Seljan hefur reyndar aldrei dregið sérlega mikið af sér enda fagna ég honum eins og týndum syni. Til viðbótar hef ég í vikunni heyrt fréttamenn segja að þessi og hinn hafi ekki viljað koma í viðtal - og auðvitað sat sami Helgi um gangana í Fjármálaeftirlitinu en Jónas Fr. Jónsson hefur væntanlega farið niður brunastigann. Meira sem sá maður virðist mikil liðleskja.