7.12.08

Kæruleysi

Ég hef sjaldan verið jafn ógurlega kærulaus og skipulagslaus. Ekki bara fyrir jól heldur bara... alltaf. Tíu dagar í próf og ritgerðarskil og ég get varla sagt að ég sé byrjuð! Reynar er lestur fyrir prófið mjög vel afmarkaður. Ein bók, eitt leikrit. Og glugg í ein tvö eða þrjú í viðbót. (Þar af eitt sem ég er ekki farin að nenna að athuga hvort sé til í bókhlöðinni.) Ekki mikið en þarf nú samt að gerast og ígrundast vandlega þar sem ég þarf að vera þrjá tíma að svara spurningunum tveimur á prófinu og ég er algjörlega búin að gleyma hvernig maður gerir svoleiðis. Ritgerðin er reyndar ekki nema 8 - 12 blaðsíður. En þarf nú samt að skrifast og það tekur einhvern tíma. Og í samhengi við það þarf að lesa alveg slatta. Í nokkrum bókum sem ég veit ekki endilega hvar eru.
Það er spenna í þessu.

Og ekki fer mikið fyrir lærdómi á morgun. Freigátan er voða kvefuð svo hún verður heima hjá mér á morgun. Á tveggjabarna dögum gerir maður ekkert og eftir að Rannsóknarskip kemur heim gerir maður heldur ekkert. Ekkert af viti allavega og maður sofnar yfir því sem maður reynir að lesa.

Vitandi þetta eyddi ég nú deginum í dag samt í kæruleysi. Fékk að sofa frameftir og notfærði mér það alveg fram undir hádegi. Hékk og lék mér við fjölskylduna og horfði á Silfur Egils eftir hádegi og fór svo á tónleika Kvennakórs Reykjavíkur í Kristskirkju.

Og ætla ég að læra eitthvað í kvöld?
Ja, kannski eftir L&O SVU.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hey, það verður að vera spenna í þessu ...