17.1.09

Grenj

Í hvert sinn sem ég álpast á mótmæli, borgarafund eða slíkt og þvílíkt þessa dagana fer ég alveg næstum því að grenja.
Það er svo magnað að vera ekki lengur eini afturhaldskommatittsplebbinn á Íslandi. Við vorum alltaf góður slatti. Og erum öll að koma út úr skápnum. Og ótrúlegasta fólk farið að ná sambandi við afturhaldskommatittinn í sjálfu sér. Dásamlegt.

Siðleysi er úti.
Græðgi er vond.
Fallegt og gott er aftur orðið gott og fallegt.

Þá er bara að koma núverandi stjórnvöldum frá áður en þau klára að brytja niður velferðarkerfið og stofna til þjóðarhungurs. Þar hef ég vaxandi trú á öllum hreyfingum andmælenda. Raddir fólksins, borgarafundafólk, anarkistar og aktívistar, Neyðarstjórn kvenna, Jæja, og allar hinar grasrótarhreyfingarnar sem virðast eflast og fjölga endalaust. Mér finnst ekkert nema gott um það að segja að þetta þjóðarandóf sé að þróast í margar áttir og að menn séu að nota margar og mismunandi aðferðir til að koma því á framfæri sem hin misvitru höfuð þjóðfélagsins vilja ekki skilja.
Og mótmælin halda áfram á meðan ástæða verður til. Ég hef litla trú á því að menn eigi eitthvað eftir að "gleyma" hvernig ástandið er á næstu mánuðum. Þegar maður getur varla verslað við aðra en Auðmenn Íslands, fyrir blenkni, og hugsar síðan undantekningalaust "helvítis fokking fokk", þegar kemur að því að borga þá er víst lítil von til að maður gleymi því.

Og ástandið á eftir að versna. Sennilega mjög mikið.

En ég legg svo sem ekkert mikið til málanna. Nema að standa klökk af hamingju í nepjunni og hlusta á slagorð gegn auðvaldi og græðgisvæðingu.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Jú. Þú peppar mig. Eina skiptið sem ég hef reyndar virkilega grenjað út af ástandinu var þegar ég sá í fréttum gamla fólkið á Akureyri flutt út á Kristnes.

Ég arga hins vegar stundum, t.d. þegar sérsveit lögreglunnar er efld og dregið úr efnahagsbrotadeildinni, þegar mótmælandi er ljósmyndaður, viktaður og spurður út úr - af því að hann náðist á eftirlitsmyndavél og dómsmálaráðherra skilur í Silfrinu ekkert í að Egill spyrji hvers vegna kaupahéðnar andskotans eru ekki yfirheyrðir - nú, þeir náðust ekki á mynd með eftirlitsmyndavél á ganginum! Eða eitthvað.

Eina stjórnarandstaðan er svo Spaugstofan, frábært í gær þegar tveir ráðherrar stóðu á skurðstofunni og reyndu að láta lítið fara fyrir sér.

Sigga, ég þekki fullt af fólki sem heldur að ,,annað sé ekki endilega betra". Þú ert elexír og vogaðu þér ekki að hætta.