14.1.09

Öll Framtíðin

Nýjustu tölur herma að kreppunni verði svona nokkurn veginn farið að létta pínu um 2025-2027. Erum að fara finnsku leiðina, með öllum  mistökunum, afneitun í upphafi og öllu saman. Samkvæmt því verðum við komin endanlega á botninn eftir svona 2 - 3  ár, ja, í kringum kosningar 2011? Og þá fyrst fáum við sennilega nýtt fólk til valda sem ætlar að hætta að moka og reyna að príla með þjóðina uppúr holunni sem núverandi stjórnvöld eru bara rétt að byrja að moka. Þangað til situr sauðslegt góðærispakkið, sviplaust af siðblindu, sem fastast á valdastólunum og bíður eftir að næsta loftbóla birtist úr helfrosnu hagkerfi heimsins og reddi Íslandi tímabundið meiri alþjóðlegum yfirdrætti. Reynir að halda spillingarsvaðinu rækilega leyndu fyrir lýðnum og skrílnum (sem auðvitað skiiiilur ekki hvers vegna ekki má draga glæpamennina til ábyrgðar) vegna þess að auðvitað gleyma þessu allir um leið og "losnar um" hagkerfið og "ódýru lánin" fara aftur að streyma eins og ótæmandi ómynnislind ofan í græðgisvæddar kverkar akfeitra þegnanna sem þá um leið kaupa sér annan jeppa og gleyma öllu byltingarkjaftæði. 
Já, þetta er vítlaust.

Þetta finnst mér nú trúverðugra heldur en að "kreppuárið" sé 2009 og strax á næsta ári verði ástandið farið að "lagast". Er búin að furða mig á því hvernig menn geta séð það út úr tölunum. Er að horfa á Kiljuna og bíða eftir að sjá borgarafundinn sem ég skrópaði á um daginn til að láta spekinga útskýra þetta fyrir mér.

Annars var hæstvirtur Leiðbeinandi minn í útskriftarverkefni ferlega bjartsýnn á að lokaritgerðina mína gæti ég auðveldlega skrifað út úr félaxheimilinu á mér og það fyrir páska. Tjáði mér einnig ánægju sína með þá menntun sem ég væri að verða búin að sanka að mér og taldi að nú færu mér að verða allir vegir færir í veröldinni. Sagðist ég vongóð um að geta hafið rithöfundarstörf á styrk frá Ríkinu í formi atvinnuleysisbóta innan skamms. Kom okkur saman um að líklega yrði ekki bannað að lifa innihaldsríku og skapandi lífi í Kreppunni. Og á næstu tuttugu árum ætti ég að ná að æfa mig heilmikið í ritstörfum.

Ég er meðvirk með lífinu. Hreinlega kann ekki við að taka vinnu af fólki sem þarf á henni að halda. Og þá meina ég ekki fjárhaxlega. Menn þurfa ekkert að drepast af því að verða gjaldþrota. Það eru hins vegar ekki allir sem vita hvað þeir eiga að gera við sig ef þeir hafa ekki stað til að geyma sig á einhvern hluta dagsins. Þá er mikil hætta á þunglyndi fyrir marga. Og þunglynt vonleysisástand í þjóðfélagslegu vonleysisástandi er verra en nokkuð sem peningar eða peningaleysi geta gert. Eða leyst. 

Ég er hins vegar alveg stútfull af verkefnahugmyndum af ýmsum toga sem ég hugsa að endist mér langleiðina til 2025. Er jafnvel að huxa um að leigja mér aðstöðu einhversstaðar með vorinu eða haustinu þar sem heima er alltaf ansi mikil hætta á heimilisstörfum.

Mikil plön.

Með verkefnum er ég þó hreint ekkert endilega að meina eitthvað sem ég fæ eitthvað borgað fyrir að gera. Það finnst mér ólíklegt að ég fái, nema kannski eitthvað eitt og eitt. Enda hef ég nú jafnan lifað einhvern veginn þannig að ég hef reynt að draga nokkurn veginn fram lífið, helst við að gera eitthvað skemmtilegt, en helst hafa síðan nógan tíma til að hegða mér eins og hugurinn girnist. Leikhúsa, leika mér, eignast börn og svona. Svona alveg síðustu missirin fyrir Hrun var ég þó farin að finna fyrir ákveðnum þrýstingi úr þjóðfélaginu. Svona lifnaðarhættir væru nú plebbskir. Jafnvel glæpur gegn hagkerfinu. Við ættum nú helst að horfa til stærra húsnæðis. Minna beyglaðs bíls. Flatra skjáa í hvívetna. (Sem mig reyndar langar mikið í. Væri mikill plásssparnaður í 80 fermetrunum.)

Enda var ég alveg búin að ákveða að láta til leiðast, að þessu námi loknu. Fá mér alvöruvinnu og hella mér út í lífsgæðakapphlaupið af krafti og elju.

Svo kom blessuð kreppan og bjargaði mér. Ég er í alvöru oggulítið fegin.

Mér dettur oft í hug alveg ótrúlega spes tarottspá sem ég fékk rétt fyrir hrun. Hún var öll fyrir... ja...  hruni. Í umhverfinu. Ekkert nema fjárhagslegar hörmungar og svartnætti allt um kring. En mér sjálfri virtist þetta ekki verða til neins annars en dásemda og hreinlega leiða mig af villu míns vegar.
Eins og ég segi. Spes.

---

Freigátan er að kvefast og kom fram í sófann á miðjum borgarafundi og við tímdum hvorugt að missa af þannig að hún fékk bara að vera þar. Lá þar hálfsofandi og fylgdist með ræðu útlenska spekingsins og svo almenna aktívistans Herberts Sveinbjörnssonar. Þegar langt var liðið á ræðuna hans rís sú stutta upp við dogg og segir: 
- Ég held að þessi maður sé reiður. Hann er með hávaða. 

Skarplega athugað. Tæplega þriggja ára barn með kvef sér það sem ríkisstjórnin vill alls ekki sjá.
Almenningurinn er reiður. Hann er með hávaða.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hey, þú hljómar svipað og grímuklæddi aktívistinn á fundinum UM mótmælin í Iðnó í síðustu viku. Hann gagnrýndi nefnilega ekki kreppuna, hann gagnrýndi óðuna (mitt orðalag, vonandi í þínum anda), yfirbygginguna, flatneskjuna o.s.frv. Hann hljómaði minna reiður en Herbert sem gagnrýndi rof stjórnvalda á samfélagssáttmálanum og gerði Gyðu svona meðvitaða.

Hmm, gæti sagt miklu meira ...