9.4.09

Haarde og Wee Bay

Í sjónvarpsþáttunum The Wire er fylgst með afar vel skipulögðum glæpasamtökum og löggunum sem eru að reyna að hanka forsprakkarana í þeim. Það er nú samt þrautin þyngri. Glæpónarnir eru með góðan lögfræðing á sínum snærum sem getur látið næstum hvað sem er hverfa sporlaust. Vitni, sönnunargögn, jú neim itt. Og líkin hrönnuðust upp og fóru í pirrurnar á löggunum þar sem statistíkin hjá þeim gekk öll út á leyst morð vs. óleyst og það var alveg ömurlegt fyrir þá að sitja uppi með haug af morðum vissu alveg hver framdi, en vitni og sönnunargögn hurfu einhvern veginn alltaf eins og dögg fyrir sólu.

Einu sinni náðist nú samt hann Wee Bay. Ekkert sérstaklega hátt settur í genginu en samt nokkuð afkastamikill í ofbeldinu. Einhvern veginn þannig að það var ekki hægt að skola af honum. Og þá brugðu glæpónarnir á snjallt ráð. Wee Bay játaði á sig öll morð sem búið var að rekja til litlu mafíunnar. Át þau öll, eins og það var kallað. Þar með voru þau úr sögunni og hann fór, einn sinna manna, í fangelsi. Löngu seinna kom fram að eiginkona hans og sonur lifðu mjög þægilegu lífi upp frá því.

Það er ekki alveg laust við að manni detti þessi leikflétta í hug nú þegar reynt var að láta Geir hverfa af sviðinu með öll óþægilegu mútumálin í Sjálfstæðisflokknum á bakinu. Hefði kannski verið ástæða til að fylgjast með bankareikningunum hans næstu árin? Ja, ef plottið hefði virkað.
En íslenskur almannarómur er e.t.v. ekki jafn auðblekktur og uppdiktuð versjón af ammrísku réttarkerfi. Þó honum Geir sé ekkert að svelgjast á "ábyrgðinni" eru ekki einu sinni sjálfstæðismenn sjálfir að gleypa að hann beri hana einn. Nú held ég að hafrarnir séu að greinast frá sauðunum innan þeirra raða og kellingarnar og ýmsir aðrir eru að standa sig afbragðsvel.

Sjálfstæðisflokkurinn á sér alveg viðreisnar von. En fyrst verður hann að átta sig á því að gamaldags íhald er vænlegra til vinsælda í framtíðinni.
Ekki harðlínufjálsismi Hannvíðs með spillingunni og mútunum.

Engin ummæli: