7.4.09

Sjávarspendýr?

Fór í Kringluna í dag. Fékk fjárheimildir uppá tugi þúsunda til að kaupa mér föt í afmælisgjöf þar sem mín höfðu öll... hlaupið. Komst ekki heldur í neitt í Kringlunni. Er þó hreint ekki vön því að versla í mjóstu búðunum. Leit ýmist út fyrir að vera ólétt eða bara almennt feit í öllu sem ég mátaði. Keypti þó eitt og annað, uppá vonina, dreif mig svo heim með hrylling í hjarta, sótti Freigátuna og hjólaði með hana í sund.

Í sundlauginni skemmtum við okkur ljómandi vel. Fram að eftirfarandi samtali:
F: Mamma, við erum hákarlar.
M: Nú?
F: Nei, ég er hafmeyja.
M: Nú, erum við hafmeyjar?
F: Nei, ég er hafmeyja. Þú ert hvalur!

Er hætt að borða. (STRAX eftir þessa pizzu.)

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Guð minn góður Siggalára, þú átt samúð mína alla - en hey fullt af börnum líka og frábæran skriftalent! Ekki láta hugfallast :)
majapals

Elísabet Katrín sagði...

Múhahaha...þetta er nú fyndið ;)
Mikael potaði nú í bumbuna mína um daginn og skellihló, sagði að ég væri feit ;)
Svo, það er bara ekkert að marka þessa gríslinga ;)
Er nú samt að hugsa um að fara aðeins oftar í ræktina en einu sinni í mánuði ;)

Nafnlaus sagði...

Bara eitt við þessu að gera, hætta að fara í Kringluna.
Hrafnhildur

Nafnlaus sagði...

Það minnir mig á vinkonu mína sem hafði fengið sér glæný og svakalega smart gleraugu. Þegar hún kemur heim til sín horfir sjö ára dóttir lengi framan í hana og segir svo graf alvarleg og með vorkunnartóni:
Æi, greyið þú!
Hulda