13.8.09

Kisur og loðfílar

Þá er að ljúka síðsumarsskítmoxtri á heimilinu. En eftir sumarútlegðina er jafnan þörf á endurskipulagningu á ýmsu innan heimilis sem og almennum þrifum. Þetta árið hefur Rannsóknarskip verið geymdur niðri í geymslu hvar ég held að hann hafi farið í gegnum hvern einasta kassa, hent og hirt, og svo höfum við hérna uppi sett ennþá meira í kassa sem þurfa að komast í geymsluna hvað sem tautar. Svo hefur líklega svona hálftonni verið hent. Þetta ætlar að hafast á mörkunum. Smábátur kemur í kvöld og við fáum næturgest á morgun. Þá ætti allt að vera orðið spikk og span. Ja, allavega fært um alla íbúð.

Annars er helst í fréttum að Hraðbátur hefur tekið bíla- og boltadelluna og gengur svaka vel í aðlögun á leikskólanum. Hann svaf þar miðdegislúr í dag, og gekk það víst eins og í lygasögu. Þessa dagana eru öll dýr kisur hjá honum, nema hestar. Freigátan brúkar hins vegar ímyndunaraflið út um gluggann og íslensk húsdýr verða gjarnan loðfílar, hreindýr og risaeðlur í hennar frásögn.

Jæja! Skúra!

Engin ummæli: