10.8.09

Það mætti halda að maður væri með ástandið á heilanum

miðað við undanfarnar færslur. Þá er kominn tími til að taka upp léttara hjal og segja fréttir af fjölskyldunni. Hún segir farir sínar misjafnlega sléttar. Fljótlega eftir heimkomu tók Móðurskipið pest sem vel má vera að hafi verið svínaflensan sem kennd er við Mexíkó. Sú var fljót í förum en skildi eftir sig andnauð nokkra sem við hefur verið brugðist af læknamafíunni með ávísun á tvenns konar meðöl, til gleypinga sem og innöndunar. Aðrir heimilismenn áttu svo í þessu um helgina, en voru sneggri að. Rannsóknarskip lá flatur í tvo daga og spilaði svo golfmót. Litlu ormarnir fengur smá hor og oggulítinn hita og voru ekkert sérlega ánægð með að vera höfð innandyra, föstudag til sunnudags.

Móðurskip hefur fengið ströng fyrirmæli um að fresta öllum hlaupum þar til astmi og bronkítis hefur látið undan síga og ku eiga að vera á sterum fram yfir maraþon. Vona bara að ekki verði gerð lyfjapróf. Hefi huxað mér rækilega út að hlaupa á morgun. Við þessari pásu í líkamsræktarátakinu hef ég brugðist með því að drekka Herbalife í tvo þriðju mála. Mér sýnist ég enn léttast, þrátt fyrir hreyfingafrí.

Freigátan er komin aftur í leikskólann og Hraðbáturinn er svakalega kátur í aðlögun á Sólgarði. Í dag var fjórði dagur aðlögunar og hann var ekkert endilega á því að koma með heim þegar ég sótti hann. Var bara búinn að borða vel, með fisk í hárinu og nennti ekkert að tala við mig þegar ég kom. Meðan hann var að aðlagast fór ég loksins og sótti formlega um doktorsnámið ógurlega. Þarf að redda smá meiri pappírum og undirskriftum á morgun en svo fer þetta fyrir deildarstjórn, einhverntíma seinna í mánuðinum. Stuð. Ég laumaðist líka til að skoða aðstöðu doktorsnema í Gimli. Hlakka óskaplega til að fá skrifborð og hillur þar. ("Skrifstofan" í horninu á dótaherberginu er einhvern veginn... orðin falin undir draslhaug fyrir löngu.)Smábátinn endurheimtum við á fimmtudag og Rannsóknarskip fer að vinna á mánudag. Smábátur hefur nám í skóla Haganna viku síðar. En áður en nokkuð af þessu gerist þarfnast heimilið talsverðrar yfirhalningar, tiltektar, þrifs og endurskipulagningar. Planið er að henda ótrúlega miklu.

Svo var verið að hlaða inn myndum úr seinnihluta sumarleyfis. Þær eru nú svo ógurlega margar flottar að ég held ég verði að setja góðan slatta inná fésið. Og slatta hér.

Þessar flottu peysur prjónaði amman fyrir austan í sumarfríinu.

2 ummæli:

Hart, félag háskólamenntaðra táknmálstúlka sagði...

Orka þín í hreyfingunni er smitandi, fór út að ganga/skokka áðan og er staðráðin að halda áfram til að ná síðustu 5? kg af ;) Takk fyrir!

Sigga Lára sagði...

Ég er hamingjusöm að vera innblástur. Þó ég flissi nú bara yfir fólki sem þarf bara að losna við einhver fimm kíló. ;)

Ég er búin með 5 og á einhver 10 eftir... miðað við upprunaleg plön um að skríða niður fyrir efri mörkin á kjörþyngd.

En svo er það svo merkilegt að eftir því sem kílóum fækkar þá fjölgar þeim sem ég vil losna við. Núna síðast tók ég fésbókarpróf sem sagði mér að mín eðalþyngd væri um 7 og 1/2 kílói minna en það sem ég var að stefna að...

Vandlifað í pæjuheiminum.