6.10.09

57% niðurskurður á starfsemi áhugaleikfélaga!

Áhugleikfélög í landinu eru um 60 talsins. Með þeim starfa nokkurþúsund manns ár hvert auk þess sem nokkrir tugir fagmanna hafa hjá þeim atvinnu sína, að hluta, með leikstjórn og námskeiðahaldi.

Þetta starf er annars unnið í sjálfboðavinnu að langmestu leyti, þessi styrkur fer aðeins í að standa undir bráðnauðsynlegum kostnaði við leiksýningar og aðra starfsemi leikfélaganna, sem í mörgum byggðarlögum er eina leiklistarstarfsemin á svæðinu. Víða halda leikfélög námskeið fyrir börn sem fullorðna, þeim sjálfum að kostnaðarlitlu eða -lausu. En samfélaginu sem þau starfa í til mikils framdráttar. Flest setja leikfélögin á svið leiksýningar a.m.k. einu sinni á ári og oft af miklum listrænum metnaði.

Áhugaleikfélögin hafa löngum hangið á horreiminni og riðu t.a.m. ekki feitum hesti frá "góðærinu". Undir lok þess var fullur styrkur frá ríki að jafnaði talsvert undir helmingi leikstjóralauna fyrir hvert verkefni.

Samkvæmt fjárlögum íslenska ríkisins fyrir árið 2010 hefur verið ákveðið að ganga endanlega frá þeim með því að skera niður styrki til þeirra um meira en helming. Með þessu sparar ríkið heilar 14,4 milljónir á ársgrundvelli. Ljóst má vera að þessi upphæð skiptir engum sköpum fyrir ríkið en breytir öllu fyrir félögin.

Afleiðingarnar sem reikna má með að þetta hafi eru þær að félögin draga enn frekar saman í að ráða sér atvinnumenn og slatti hættir starfsemi. Þar með er farinn góður möguleiki á að halda, t.a.m., nokkur þúsund atvinnuleitendum í virkni.

Finnst mönnum þetta virkilega vera niðurskurður sem kemur til með að borga sig?
Þarf virkilega að spara aurinn þegar geðheilsa fjölda manns er í húfi?
Væri ekki ráð að styrkja áhugastarf í landinu, þegar tekið er tillit til þess að það kostar skítogkanil en getur haft afdrifaríkar afleiðingar fyrir lífsgæði fjölda manns?

5 ummæli:

Ásta sagði...

Við vissum að þetta stæði til. Engu að síður: Fokk.

Sigga Lára sagði...

Það breytir engu hvenær við vissum þetta. Þetta bara sökkar og ég hef enga trú á að þetta borgi sig, í stóra samhenginu.

Elísabet Katrín sagði...

Það virðist vera alveg sama hverjir stjórna þessu landi, þegar kemur að sparnaði þá er aurinn sparaður en krónunni kastað.
Þetta er ömurlegt í alla staði, grátlegt og til háborinnar skammar!

Sigga Lára sagði...

Einmitt. Ekkert mál að ná inn fyrir þessari upphæð. Afskrifa bara 14,4 milljónum minna fyrir Bjarna Ármanns. Hann tekur nú varla eftir því.

Siggadis sagði...

Iss - hann tekur ekki einu sinni upp veskið fyrir svona smápeninga!