12.10.09

Að lifa október af. Dagur 12.

Brúkaðu alla gagnrýni á sem uppbyggilegastan hátt. Reiknaðu aldrei með því að neins konar neikvæðni sé beint persónulega í þinn garð, heldur skrifaðu hana alfarið á dagsform viðkomandi. (Hvaðan hún kemur yfirleitt hvort sem er.)

Ég held að gagnrýni hvers konar sé erfiðari viðureignar í október en aðra mánuði. Eftir að ég fór að "rannsaka" málið sé ég betur og betur hvað margir eru krumpaðir í október. Það er sem sagt ekki bara ég.

Svo er ég líka heldur betur búin að þurfa að taka á þessu. Er að vinna verkefnislýsinguna mína í styrkumsóknina mína í hundraðog umptánda sinn. Fékk í gærkvöldi, og fæ örugglega aftur í dag, yfirferð frá leiðbeinendum mínum með millllljón athugasemdum þar sem þeir segja aftur og aftur að ég þurfi að útskýra betur hvað ég er að meina og skauta ekki yfir hlutina með einhverju akademísku djargoni og kjaftæði. (Sem er snúið. Ég er ekki allsstaðar búin að ákveða hvað ég meina.)

En málið er auðvitað það að þeir vita hvað þeir eru að tala um. Hafa endalausa reynslu í styrkumsóknaferlum og eru ákveðnir í að láta mig gera þetta eins ljómandi, glimmrandi vel og ég mögulega get, svo ég eigi hugsanlega séns í helvíti að fá einhvern pening, þrátt fyrir að hafa ekki nema mjög óljósar hugmyndir um hvað ég er að byrja að gera. Eiginlega ætti ég ekki einu sinni að reyna við þessa styrkumsóknavinnu fyrr en í vor, og þarf líklega að gera þetta aftur þá, en þá verð ég líka komin í gríðarlega góða þjálfun.

Svo nú er málið að taka á honum stóra sínum og brúka athugasemdirnar til þess sem þær eru og forðast að hugsa:
"Kræst, ég er fáviti."
Eða taka þá á þeim með því að belgja út kassann og hugsa tilbaka:
"Ég er það ekki neitt. Ég er að vinna í FJÓRÐU, FOKKÍNG, HÁSKÓLAGRÁÐUNNI MINNI!"

(Þó svo að menntahroki sé annars alla jafna undirrót alls ills í heiminum og skyldi hvergi finnast undir eðlilegum kringumstæðum, auðvitað.)

---

Jahérnahér. Svo klikka ég alveg á því að tjá mig um Margt smátt sem var um helgina. Mar er ekki sérlega obbsesst af fortíðinni. Allavega, það var, gott og gaman og æði. Einstaklega mörg flott stuttverk á boðstólnum, innlend sem færeysk. Gestrisni Leiklistarfélags Seltjarnarness í þeirra ágæta félagsheimili rokkaði feitt. Og Norðmenn ætla kannski að vera með næst. Hvernig væri að rukka þá umm svona 2000 milljóna þátttökugjald? ;)

2 ummæli:

BerglindSteins sagði...

Gva, þú ert farin að nálgast Georg Bjarnfreðarson! - Ég öfunda þig mikið af yfirlesurum sem nenna að gera margar og uppbyggilegar athugasemdir sem hjálpa þér að bæta verkefnislýsinguna. Snöft.

Sigga Lára sagði...

Jább. Bara klára þetta og post-doc, og sækja svo um á bensínstöðinni. Þá má Bjarnfreðarson fara að vara sig.