Þá er kominn tími á jólaskapið.
Ég held að ástæðan fyrir öllu stressinu í desember sé sú að menn ætla sér allt of stuttan tíma til að jóla. Í desember þarf að vinna frammúr sér (út af öllum frídögunum) kaupa jólagjafir, gera hreint, skipuleggja jólaföt, jólamat hlusta á alla jólatónlistina í einum rykk og hafa síðan líka tíma til að skemmta sér við jólahlaðborð og jólatónlist. Þetta er náttúrulega rugl. Enda kemur yfirleitt út úr þessu stressaðasti mánuður ársins sem verður sjaldnast neitt skemmtilegur og flestir eyða jólunum sofandi eftir allt hafaríið. Ég held að það sé ástæðan fyrir jólafýlunni sem heltekur marga þegar hátíðarnar nálgast. Þessi tími er alveg ömurlegur þegar ekki er tími til að njóta hans.
Ég er að hugsa um að fara að skipuleggja jólagjafainnkaup. Þau eru skemmtileg ef maður hefur tíma í þau. Svo er líka kreppa og alveg fáránlegt að bíða með þau þangað til ofurkaupmenn eru búnir að kýla upp verðið. Í ár ætla ég líka að gaumgæfa þau vel og vandlega og sneiða hjá öllum glæpamönnum með 60% markaðshlutdeildir og afskriftir. Kaupa bækur beint frá útgefendum, annað dót helst beint frá hönnuðum eða þá frá ponkulitlum smáseljendum sem eru ekki skyldir eða tengdir Bónusfeðgum eða öðrum stórgrósserum á neinn hátt. Byrji maður snemma getur maður líka pælt vel og vandlega í því hvað stórfjölskylduna vantar/langar í. (Ásta vinkona ætti að halda námskeið á þessum tíma. Hún er sérfræðingur í að velja gjafir sem maður var búinn að gleyma að mann vantaði, en hitta ævinlega beint í mark.) Best er að klára að pakka inn áður en október er úti.
Svo er ekki úr vegi að fara að láta eitt og eitt jólalegt lag detta inn á playlistann. Ég kem ævinlega út úr jólunum án þess að hafa heyrt helminginn af uppáhalds jólalögunum mínum. (Og hafandi heyrt allt of mikið af öðrum.) Þá má flokka jólatónlistina í fyrirjóla og hájóla tónlist. Diskurinn úr Jólaævintýri Hugleiks er til dæmis næstum því ekkert jólalegur og er fínn í október. Það sama má segja um jóladiskaúrval Hraunsins, ef maður á eitthvað af þeim. Allskonar jólarokk er líka alveg fínt, núna. Og núna fer líka að koma tíminn fyrir hið árlega áhorf á The Nightmare Before Christmas. (The Muppets Christmas Carols og It's a Wonderful Life þurfa síðan að vera á dagskránni einhverntíma á árinu.)
Með þessu skipulagi ætti desember að vera laus í jólaglögg, aðventutónleika eins og menn geta í sig troðið og dúll.
Ráð dagsins er sem sagt: Að byrja að jóla!
13.10.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
2 ummæli:
Áttu The Muppets Christmas carol?? Eða veistu hvort hún fæst einhvers staðar? Mig langar svo í hana en hef hvergi fundið....
Sammála þessu með jólastandið! Var í Ikea í morgunn og þar er allt orðið fullt af jólatrjám og skrauti!
Kv. Lilja
Nei, en um síðustu jól var hún á voddinu á skjáeinum, ef þið eruð með svoleiðis.
Er annars ekki helst að finna svoleiðis gersemar í Nexus?
Skrifa ummæli