4.11.09

Afrek

Ávinningurinn af að þurfa að vera heima heilan, sem nauðsynlega hefði þurft að fara í ritgerðarskrif, með lítinn pestargemling, er ýmis. Þar sem ég er aðframkomin af stressi yfir að vera ekki í skólanum að hamast við að ritgerða er ég einkar atorkusöm og búin að afreka eitt og annað.
Eins og:
~ Taka ferlega mikið til. (Sem hefði nú reyndar gengið betur ef sá stutti hefði ekki endilega viljað hjálpa MIKIÐ til.)
~ Ganga frá hverri einustu pjötlu hreins þvottar af allri fjölskyldunni. (Hugsanlega ekki alveg öllu á rétta staði, þó, vegna áðurnefndrar hjálparhellu.)
~ Hringja í augnlækni fyrir hönd auga Smábáts sem er ekki hætt að hafa sýkingu þrátt fyrir hálfan mánuð á tvíþættum ofurkúr. (Augnlæknir ætlar að hringja síðar.)
~ Panta tíma hjá lækni seinnipartinn fyrir Hraðbátinn sem er með einhverja undarlega pestarblöndu af magapest, hósta og raddleysi auk þess sem ég hef eyrun grunuð um að vera með vesen. Samt engan hita. Svo þetta er allt ferlega grunsamlegt.
~ Komast að því að þurrkarinn er léttari en þvottavélin.
~ Skrúfa þvottavélina í sundur.
~ Finna ekki hvers vegna hún vindur ekki almennilega.
~ Skrúfa þvottavélina saman aftur.
~ Þrífa á bak við þvottavél og þurrkara áður en allt var setta aftur á sinn stað.
~ Þrífa myglmundinn úr baðherbergisloftinu sem kemur alltaf í heimsókn í of miklum raka, sem kemur ef einhver vogar sér að loka baðherbergisglugganum eða þvottavélin vindur ekki almennilega, og gæti líka hugsanlega verið þáttur í veikindum Hraðbátsins.
~ Panta viðgerðarmann fyrir þvottavélina.
~ Fatta asnalega skyrtutakkann sem var inni og líklega ástæða þess að þvottavélin var ekki að vinda almennilega.

Næst á dagskrá er að hringja skömmustuleg í viðgerðarverkstæðið og ljúga því einhvernveginn að þvottavélin hafi lagað sig sjálf.

Segiði svo að svona dagar fari í vitleysu.

1 ummæli:

Gummi Erlings sagði...

Er einmitt að vinna á svipaðri myglu heima. Mér var sagt um daginn að Tea Tree olía væri best á svona, en hef ekki reynt enn.