Jóhanna Sig. vill bjóða Haga upp. Í heilu lagi, bara. Það væri nú aldeilis fínt. Þetta getur enginn keypt nema bankapésarnir sem rændu okkur.
Einhverjir hafa stungið uppá að bjóða upp hverja "keðju fyrir sig". Þær eru eitthvað um 20. En það gildir einu. Engir nema virkilegir risastóreignamenn hefðu efni á að kaupa þær. Já, og svo leppar fyrir Bónusfeðgana sem eiga nú líklegast varasjóði einhversstaðar þar sem enginn má vita af þeim.
Mér finnst langhreinlegast að selja hverja búð fyrir sig. Þar með gæti venjulegt fólk tekið þátt og hugsanlega myndast smuga fyrir semí-heiðarlega viðskiptahætti og eðlilegt samkeppnisumhverfi á matvæla markaði að skapast.
Eiginlega finnst mér þetta eini möguleikinn sem eigi að koma til greina.
Fyrst verða þeir sem eru rúnir auði
að öðlast mola af hinu stóra brauði.
(Brecht/Weil)
---
Annars fór ég á Capitalism – A Love Story í gær. Ýmislegt magnað er að gerast í Bandaríkjum Ameríku. Ég var mjög hrifin af rekstrarformi sem er farið að skjóta upp kollinum, þar sem starfsmenn mynda stjórn fyrirtækisins og skipta ágóðanum alveg hnífjafnt. Og svo fólkið í Chicago (minnir mig það hafi verið) sem tók húsið sitt tilbaka, eftir að hafa verið borið út. Það er hreinlega verið að reyna að hnekkja auðmannaveldinu og það er séns að Obama sé að hjálpa til við það.
Annars grét ég eins og garðkanna yfir seinni hluta myndarinnar. (Svo ekki sé nú minnst á lokalagið.) Eins og ég var undir gríðarlega miklu af ræðuhöldunum í búsáhaldabyltingunni. Þó ekkert annað gerist þá er ræðuhöld og annar málflutningur sem knúinn er að hugsjón um einhverskonar réttlæti og jöfnuð í þjóðfélögum heimsins nokkuð sem ég átti ekki von á því að lifa að sjá í þessu lífi. Ekki eftir græðgisklikkun undanfarinna ára.
---
Við Friðrik erum heima, þriðja daginn í röð. Hann er með magapínu og eyrnabólgu. Kominn á pensillín sem lagar eyrnabólguna en hreint ekki magann. Ég er líka með einhverja magapínu og er búin að ganga fyrir vatni einusaman í þrjá daga. (Búin að missa svona eittoghálft kíló!)
---
Svo á Rannsóknarskip afmæli í dag. Gaman fyrir hann.
Svona fyrir utan að ég er að fara austur í kvöld og verð þangað til annað kvöld.
Þar ætla ég að kistuleggja og jarða hana Láru ömmu mína sem fékk hvíldina um síðustu helgi, södd lífdaga og ríflega það. Hún eignaðist hundraðfimmtíuogeitthvað afkomendur á meðan hún lifði, bjó lengst af úti í sveit og var alltaf með fullt hús af börnum og gestum. Síðasta samtal sem ég átti við hana átti sér stað fyrir nokkuð mörgum árum síðan, en síðustu ár hefur hún ekki mikið getað tjáð sig. Þá var ég tuttugu og sjö ára og hún hreint rasandi yfir því að ég ætti ekki mann. Þá ákvað ég að spila aðeins með hana, svona af því að hún var bindindiskona, og sagði eitthvað á þá leið að það þýddi ekkert að eiga þessa kalla, þeir drykkju allir svo mikið brennivín. Og hún var nú sammála því, að þá borgaði sig nú frekar að eiga engan.
Og hún lagði svo á og mælti um að við nöfnur hennar skyldum verða kistuberar, svo það er eins gott að vera skikkanlega til fara og haga sér.
5.11.09
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Engin ummæli:
Skrifa ummæli