12.11.09

Er erfiðara, betra?

Íslendingar snobba fyrir erfiði. Ef eitthvað er "vinna" þá er það "gagnlegt" og þar af leiðandi gott og mannbætandi. Fyrst á manni að finnast vinnan erfið. Það er grundvallarskilyrði fyrir því að maður sé "að gera gagn" og "eitthvað af viti." Svo má maður svo sem reyna að hafa gaman af því, ef maður endilega vill.

Æijá, það er ekki skrítið að við þurftum að bryðja öll þessi þunglyndislyf.
Ég vona að þetta viðhorf sé á undanhaldi. En ég sé það víða.
Erfiðara nám er kúlla. Eins heyri ég menn enn metast um fjölda vinnustunda á sólarhring. Og er þá greinilegt að magn er mikilvægara en gæði.

Mér gengur ævinlega betur með það sem ég finn ekki fyrir að sé vinna. Það sem mér finnst gerast algjörlega að sjálfu sér, ég á erfitt með að bíða eftir að fá að byrja á á morgnana og slíta mig frá, hvað sem klukkan er. Þegar ég dett ofan á eitthvað svoleiðis verður yfirleitt úr því eitthvað ferlega skemmtilegt sem ég fæ gríðarlegt lof fyrir, jafnvel verðlaun eða massafínar einkunnir. Eins og leikrit. Töskur. Eða sum skólaverkefni. Það sem mér finnst þó mikilvægast er að þetta eru þau verk sem ég er ánægðust með í sálinni. Margt af þessu ber umbunir í sjálfu sér. Eins og fjölskyldan mín sem ég fæ aldrei nóg af að leika við. Og öllum líður vel saman og eru hamingjusamari fyrir vikið.

Þegar ég ákveð hins vegar að eitthvað sé "vinna" eigi bara að vera "erfitt" og "gagnlegt" (svo ekki sé nú minnst á ef eina markmiðið er að græða peninga) þarf ég fljótlega að fara til læknis, fá geðlyf og fara í geðmeðferð.

Svoleiðis verkefni eitra ævinlega fyrir mér allt lífið.

Ekki svo að skilja að ég geti ekki stundað einhvers konar "vinnu". Gert það sama dag eftir dag, árum saman, jafnvel. En áhuginn og ánægjan af því þarf að vera frumhvatinn til þess. Ef það fer að verða erfitt, leiðinlegt, ja, eða "bara vinna" þarf ég að snúa mér að öðru.

Engin ummæli: